Tindastólsmenn í toppstandi gegn skrefþungum Skallagrímsmönnum

Hester og Hannes bjóða Whitfield góðan daginn. Helgi Rafn fylgist með.  MYND: ÓAB
Hester og Hannes bjóða Whitfield góðan daginn. Helgi Rafn fylgist með. MYND: ÓAB

Skalla-Grímur gamli hefði sjálfsagt hrist hausinn yfir frammistöðu sveitunga sinna hefði hann verið í Síkinu í kvöld. Þeir voru næstbestir á öllum sviðum körfuboltans en Tindastólsmenn keyrðu yfir gestina frá fyrstu mínútu og þeir sáu aldrei til sólar. Leikurinn var hin besta skemmtun fyrir kröftuga og káta stuðningsmenn Stólanna sem sigruðu örugglega, 97-75.

Sóknarleikur Tindastóls var eldsnarpur í byrjun leiks en varnarmenn Borgnesinga voru vant við látnir og létu Caird og félaga leika lausum hala. Hann setti niður tvo þrista í upphafi en Hester þurfti að hafa aðeins meira fyrir hlutunum gegn Whitfield og Flake. Gömlu Tindastólshetjunni var vel fagnað fyrir leik en hann gaf að sjálfsögðu ekki þumlung eftir frekar en fyrri daginn. Eftir nokkrar byltur beit Hester bara á jaxlinn og lét Borgnesinga ekki eiga neitt hjá sér. Kappinn lofar sannarlega góðu. Um miðjan fyrsta leikhluta var staðan 18-12 en stuttu síðar kom Björgvin inn fyrir Caird og þá varð nú gaman í Síkinu. Ætli kappinn hafi ekki troðið fimm sinnum í leiknum og hver troðslan var annarri betri. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 33-16 og ljóst að lið Skallagríms þurfti að stíga duglega upp ef þeir ætluðu sér eitthvað í kvöld.

Þeir náðu að herða á vörninni og Stólarnir hvíldu lykilleikmenn í byrjun annars leikhluta. Bæði lið spiluðu reyndar fína vörn á þessum kafla og leikmenn gerðu sig seka um mistök í sókninni. Hester kom Tindastóli í 46-23 en þá náði Skallagrímsmenn ágætum kafla og minnkuðu muninn í 14 stig. Staðan í hálfleik var 52-36.

Gestirnir gerðu þrjár fyrstu körfur síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í tíu stig eftir tveggja mínútna leik. Afur keyrðu Stólarnir upp hraðann og um miðjan leikhlutann átti Pétur algjöra snilldarsyrpu en á tæpri mínútu tók kappinn sóknarfráköst og setti niður þrist, stal svo boltanum og lagði í körfu Skallagríms og fékk víti að auki sem hann setti niður. Kláraði svo þennan pakka  með sniðskoti. Snillingur. Staðan 69-46 og kátt í Síkinu. Svo tróð Helgi Rafn og þá tróð Björgvin bara tvisvar. Staðan 79-51 og fjórði leikhlutinn bara formsatriði. Í honum gerðist fátt markvert utan þess að Björgvin tók einhverja þá klikkuðustu alleyoop-troðslu sem sést hefur í Síkinu eftir frábæra stoðsendingu frá Helga Margeirs.

Israel Martin virðist sannarlega vera að gera góða hluti með lið Tindastóls. Hann vill spila hraðan bolta og er duglegur að nota allan hópinn. Í kvöld voru það bara Pétur og Helgi Rafn sem spiluðu meira en 30 mínútur og frábært að sjá að menn virðast njóta þess að spila hver fyrir annan.

Antonio Hester var atkvæðamestur í liði Tindastóls með 25 stig og 13 fráköst. Pétur var með 23 stig og sjö stoðsendingar. Björgvin og Caird voru með 14 stig og Pálmi og Helgi Rafn átta stig hvor. Helgi reif niður átta fráköst og spilaði fantavörn á Whitfield sem skilaði engu að síður niður 32 stigum, en þar af 15 utan 3ja stiga línunnar. Frábær leikmaður. Flake náði sér ekki á strik í sókninni frekar en hinir leikmenn Skallagríms en Whitfield var sá eini sem lét almennilega að sér kveða. Næst stigahæstur var Skagfirðingurinn Sigtryggur Arnar með sjö stig.

Tölfræði af vef KKÍ >

Næsti leikur Tindastóls er í Maltbikarnum en á sunnudaginn fara strákarnir norður á Akureyri og mæta Þórsurum í Höllinni kl. 17:00. Næsti leikur í Dominos-deildinni er síðan eftir viku í Grindavík og síðasti leikurinn fyrir jólafrí er svo í Síkinu þann 15. desember en þá mæta Haukar á Krókinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir