Tindastólsdrengir fundu taktinn
Tindastólsdrengir náðu í sinn fyrsta sigur í dag þegar að þeir sigruðu lið KH úr Hafnafirði 4:0. Leikurinn fór fram á Sauðárkróki. Með sigrinum kom Tindastóll sér úr fallsæti í 3. deildinni en ÍH situr áfram á botni deildarinnar.
Stólarnir voru betri aðilinn í leiknum allan tíman og strax á 8. mínútu skoraði spánverjinn Raul Sanjuan Jorda eftir að Arnar Ólafsson sendi hann einn í gegn með frábærri stungusendingu. KH virtist hafa jafnað metinn á 31. mínútu en eftir langa umhugsun ákvað dómari leiksins að dæma rangstöðu eftir langt spjall við línuvörðinn. Áhangendur Tindastóls voru þó á því að bakhrinding hafi átt sér stað í aðdraganda marksins og því um meiri aukaspyrnu en rangstöðu að ræða. Króksarar óðu í færum og áttu Arnar og Raul sitthvort dauðafærið þegar að þeir komust einir á móti markmanni. Heimamenn komust í 2:0 rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar að Jóhann Daði átti flotta fyrirgjöf á Pape Mamadou Faye sem tók vel á móti boltanum og lagði hann niður í nærhornið.
Hafnfirðingar voru áfram daufir í fyrri hálfleik en Stólarnir hættulegir. Þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik stöðvaði dómarinn leikinn sökum heilsubrests hjá sjálfum sér. Um var að ræða verk í hendi, en dómarinn hafði farið í bólusetningu í vikunni. Eftir að hafa fengið sér vatnssopa og pústað, flautaði hann leikinn aftur á og stóð sig áfram með prýði.
Á 70. mínútu skoraði Raul sitt annað mark eftir stoðsendingu frá Konráði Frey, fyrirliða Tindastóls.
Það var síðan hinn spánverjinn í liði Tindastóls sem skoraði fjórða markið fimm mínutum seinna en hann heitir Francisco Vano Sanjuan en er kallaður Kiko af liðsfélögum sínum. Pape átti stoðsendinguna.
4:0 sigur Tindastóls því staðreynd og er þetta fyrsti sigur þeirra í deildinni. Það er ánægjulegt að þeir séu komnir á sigurbraut, og litu þeir mun betur út í dag heldur en á móti Dalvík/Reyni í síðustu viku þar sem að þeir töpuðu 3:0. Næsti leikur Stólanna er á miðvikudaginn 16. júní en þá gera þeir sér ferð til Þorlákshafnar þar sem að þeir sækja lið Ægis heim.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.