Tindastóll sækir ÍR heim í kvöld

Fyrstu Fjórir leikirnir í seinni umferð Domino's deild karla fara fram í kvöld og munu Stólarnir mæta ÍR-ingum í Hertz-Hellinum í Seljaskóla. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og því verður TindastólsTV ekki á staðnum. Stuðningsmenn Tindastóls á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta og styðja við strákana sem eiga harma að hefna frá fyrsta leik tímabilsins er Stólarnir lutu í parket á heimavelli.

ÍR er hörkulið og sást vel er liðin áttust við í bikarnum en þá náðu okkar menn að landa sætum sigri á lokakafla leiksins og komu sér í undanúrslit Maltbikarsins sem fram fer í næstu viku í Laugardalshöllinni en þar verður leikið við Hauka.

Fyrir leikinn í kvöld verður deildin með forsölu á bikarleikinn í liðsrútunni fyrir utan Hellirinn. „Um að gera að mæta og tryggja sér miða og fara svo á leikinn við ÍR í framhaldinu. Verðum við mættir kl 18.00. Fyrstir koma fyrstir fá. Miðinn kostar 1500 kr. fyrir 16 ára og eldri og 500 kr. fyrir 6-15 ára. Salan á þessum miðum rennur öll til körfuknattleiksdeildar Tindastóls,“ segir á Fésbók Körfuboltadeildar Tindastóls.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir