Tindastóll íslandsmeistari í 4. flokk kvenna í átta manna bolta
Stelpurnar í fjórða flokki Tindastóls kórónuðu glæsilegt tímabil þegar þær voru krýndar Íslandsmeistarar í 4. flokk kvenna í átta manna bolta eftir að þær unnu Þór á mánudaginn sl. með 2-5 sigri í leik sem fram fór á Akureyri.
Tindastólsstelpur unnu átta leiki, töpuðu einungis einum og enduðu með 24 stig á toppi deildarinnar, tveimur stigum meira en Fram í öðru sætinu sem var með 22 stig og þremur stigum meira en KA sem endaði í því þriðja. Markatala Stólastúlkna var sú langbesta í deildinni því þær skoruðu hvorki meira né minna en 54 í mörk níu leikjum og fengu á sig 14 mörk sem skilaði þeim 42 mörkum í plús. Til samanburðar var markatala Fram og KA 15 mörk í plús.
„Þetta er alveg einstakur hópur,“ segir Guðni Þór Einarsson í samtali við Feyki en hann er þjálfari stúlknanna.
„Það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni“
„Það hefur verið ótrúlega gaman að sjá þær vaxa í sumar bæði sem leikmenn og einstaklinga. Þessar stelpur hafa svakalega mikinn metnað og mæta alltaf á hverja æfingu til þess að læra og bæta sig enn frekar og það hugarfar mun svo skila þeim enn lengra í komandi framtíð“
Þetta er ekki eini titillinn sem stúlkurnar vinna í ár því þær unnu einnig 4. flokk kvenna í C-liðum á Rey Cup sem fram fór í sumar og hlutu einnig háttvísiverðlaun á því móti.
„Framtíðin er mjög björt og það verður virkilega gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Bak við liðið er svo mjög öflugur hópur foreldra sem hefur verið duglegur að fylgja liðinu í allt sumar. Þeir eiga risastóran þátt í velgengni stelpnanna,“ sagði Guðni Þór að lokum.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.