Tilvera Tindastóls í toppdeild í hættu eftir svekkjandi tap í gær

Stólastúlkur ganga svekktar af SaltPay vellinum eftir svekkjandi tap í gær á Akureyri. Mynd: PF.
Stólastúlkur ganga svekktar af SaltPay vellinum eftir svekkjandi tap í gær á Akureyri. Mynd: PF.

Þrír leikir fóru fram í Pepsi Max deild kvenna í gær þegar ÍBV tók á móti Keflavík í Eyjum, Stjarnan tók sig upp og ferðaðist úr Garðabænum og inn í Laugardalinn til Þróttar og Stólastúlkur skruppu yfir Tröllaskagann og öttu kappi við stöllur sínar í Þór/KA á Akureyri. Úrslit voru ekki hagstæð fyrir Tindastól þar sem liðið beið lægri hlut fyrir sprækum Eyfirðingum og Keflavík, sem vermdi botnsætið, náði að leggja Eyjastúlkur og náðu að spyrna sér örlítið af botninum þar sem Stólar dúsa nú.

Valur, með 38 stig, og Breiðablik, 31, hafa tekið afgerandi forystu í Pepsi deildinni en Keflavík, Fylkir og Tindastóll berjast á botninum um tilverurétt sinn í deildinni. Stólar 11 stig en hin tvö með 12 og því var leikur Tindastóls afar mikilvægur í þeirri baráttu gegn Þór/KA, sem kom sér í þægilega stöðu með sigrinum og upp fyrir ÍBV með 18 stig í 6. sæti. Fylkir á leik til góða sem fram fer í dag er Selfyssingar mæta á Würth völlinn í Árbænum. Ef Fylkir nær hagstæðum úrslitum þar má ætla að róðurinn fari að verða erfiður fyrir Stóla.

En að leik gærdagsins á Akureyri. Bæði lið ætluðu sér að selja sig dýrt enda um hörkuleik að ræða, nokkuð um pústra og glímutök. Greina mátti í fyrri hálfleik að gestgjafar höfðu betur í leikskipulagi og sendinganákvæmi og náðu nokkrum sinnum að fara illa með varnarleik Stóla og áttu nokkur góð færi sem fóru þó forgörðum. Í liði þeirra er einn fljótasti leikmaður deildarinnar sem ætíð náði að ógna með hraða sínum og átti varnarmenn Stóla í erfiðleikum með hana, sérstaklega í fyrri hálfleik. En það var þó ekki hún sem gerði út um leikinn heldur Karen María Sigurgeirsdóttir sem skoraði á 19. mínútu með ansi laglegu einstaklingsframtaki fyrir framan vítateiginn og hárnákvæmu skoti framhjá annars góðum markmanni Stóla. Þetta var eina mark leiksins þó möguleikarnir væru nokkur til að bæta við. Stóla fengu tvö dauðafæri sem illa var farið með. Annað þeirra átti Mur sem ekki er vön að láta þau framhjá sér fara, gefist þau á annað borð. Í hinu tilvikinu virtist einhvers misskilnings gæta milli tveggja Stóla í markteignum sem náðu ekki að pota boltanum inn í markið. Þegar leik var við það að ljúka fengu Norðankonur umdeilt víti er dæmt var á Kristrúnu innan vítateigs er hún virtist fara í boltann og síðan í manninn. Dómari ekki á sama máli og Feykir og benti ákveðið á vítapunktinn. En lukkudísir voru ekki með vítaskyttunni sem skaut í þverslá og varnarmenn Stóla bægðu hættunni frá.

Heilt yfir var leikur Stóla ágætur og mun betri í seinni hálfleik þó, hraðari bolti og meiri ákveðni og harka. Með örlítilli heppni hefði verið hægt að koma með eitt stig í Skagafjörðinn.

Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, segir að liðið hafi gert nóg til að uppskera að minnsta kosti stig. Hann er bjartsýnn á það að Tindastóll leiki í Pepsi Max deildinni að ári.

„Við vorum aðeins undir í baráttunni í fyrri hálfleik og náðum lítið að halda í boltann. Mér fannst við sýna mun betri leik í þeim síðari. Vorum þéttari varnarlega og ógnuðum meira fram á við. Eins og við reiknuðum með þá var leikurinn mjög jafn og Það þurfti gott einstaklingsframtak til að sigra leikinn og því miður datt það Þórs/Ka megin. Það sem við tökum jákvætt úr þessu er seinni hálfleikurinn. Mér fannst við gera nóg til að uppskera að minnsta kosti stig. Við færðum okkur framar á völlinn og vorum þéttari varnarlega. Góð innkoma frá Nadin og Bergljótu Ástu hjálpaði mikið til við að tengja saman vörn og sókn,“ segir Guðni sem er bjartsýnn á veru Stóla í deild þeirra bestu að ári?

„Já, við höfum mikla trú á því að Tindastóll leiki í Pepsi Max deildinni að ári. Það er enn í okkar höndum að ná okkar markmiði sem er að tryggja veru liðins í efstu deild að ári.“

Staða & úrslit má nálgast HÉR

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir