Til hamingju Stólastúlkur!
Lið Tindastóls og ÍA mættust í Akraneshöllinni nú undir kvöld í 17. umferð Lengjudeildarinnar. Stólastúlkur höfðu þegar tryggt sér sæti í efstu deild og lið ÍA var komið á lygnan sjó eftir basl í sumar. Eitt hékk þó eftir á spýtunni hjá liði Tindastóls en það var Lengjudeildarmeistaratitillinn. Það fór vel á því að Meistari-Mur tryggði toppsætið með enn einni meistaraþrennunni. Lokatölur voru 2-4 fyrir Tindastól eftir fjörugan leik.
Stólastúlkur náðu forystunni eftir tveggja mínútna leik þegar Jaclyn Pourcel rak tána í fyrirgjöf Hugrúnar og setti boltann í fjærhornið á eigin marki. Mur komst á blað á 29. mínútu þegar hún rak smiðshöggið á leiftursókn Stólanna. Jackie átti frábært sendingu frá miðju inn fyrir vörn ÍA þar sem Aldís María náði boltanum og komst með harðfylgi upp að markteig þar sem hún sendi boltann á Mur sem rúllaði honum í opið markið. Lið ÍA ætlaði ekki að láta rúlla sér upp á Skaganum og Erla Katrín Jóhannesdóttir minnkaði muninn eftir slysalegan varnarleik Tindastóls á 33. mínútu. Staðan 2-1 í hálfleik.
Jafnræði var með liðunum megnið af síðari hálfleik en í kjölfar skiptinga hjá Stólastúlkum þá jókst sóknarþunginn og þær fóru að halda boltanum betur. Þetta skilaði tveimur mörkum frá Mur á þriggja mínútna kafla. Fyrst vann Hugrún boltann á hægri kantinum, brunaði fram en átti svo fína sendingu fram á Mur sem fékk pláss til að taka boltann með sér, komast inn á teig og negla boltanum í markið á milli markmanns og nærstangar. Klassísk Mur. Á 81. mínútu átti síðan Agnes Birta 50-60 metra sendingu úr öftustu vörn inn fyrir vörn ÍA þar sem Mur koms á auðan sjó og renndi boltanum undir markvörð ÍA. Staðan orðin 1-4 og ljóst að toppsætið var í höfn.
Bæði lið fengu þó færi eftir þetta. Skagastúlkur fengu ódýrt víti undir lok venjulegs leiktíma. Amber Michel plataði Jaclyn Pourcel til að skjóta í hægra hornið og varði, Puorcel náði boltanum aftur, hittann ekki vel og Amber varði á ný. Á 92. mínútu fengu heimastúlkur síðan hornspyrnu, Amber náði ekki til boltans og Pourcel náði að skalla í jörðina og boltinn skoppaði yfir Laufeyju á línunni og í markið. Stuttu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Stólastúlkur gátu fagnað titilinum ásamt góðum hópi stuðningsmanna sem fylgdu liðinu á Skagann.
Lokaumferð Lengjudeildarinnar fer fram föstudagskvöldið 9. október – svo fremi sem þjóðfélagið verður ekki allt komið í sóttkví! Þá kemur lið Völsungs frá Húsavík í heimsókn og bæði liðin kveðja þá Lengjudeildina. Völsungur spilar í 2. deild að ári en lið Tindastóls fer í sykurlausu Pepsi Max deildina. Það verður spennandi. En á föstudaginn gefst okkur vonandi kostur á að fagna með Stólastúlkum alveg einstökum árangri. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.