Til hamingju Stólastúlkur!

Stólastúlkur kampakátar í leikslok. Efri röð frá vinstri: Jónsi þjálfari, Lára Mist, Magnea Petra, Jackie, María Dögg, Amber, Margrét Rún, Bergljót, Krista Sól, Rakef Sjöfn og Kristrún. Neðri röð frá vinstri: Bryndís Rut, Aldís María, Laufey Harpa, Mur, Birna María, Sólveig, Hugrún, Agnes og Berglind. Á myndina vantar Guðna þjálfara, Hrafnhildi sem er fjarri góðu gamni sökum meiðsla og þá spiluðu Hallgerður, Anna Margrét, Eyvör og Lara Margrét með liðinu fyrri part sumars. Vonandi vantar Feyki ekki einhvern í upptalninguna en allir hafa gert sitt til að búa til sigurlið. Til hamingju allir Stólar – nær og fjær! MYND: GRÓA GUÐMUNDA
Stólastúlkur kampakátar í leikslok. Efri röð frá vinstri: Jónsi þjálfari, Lára Mist, Magnea Petra, Jackie, María Dögg, Amber, Margrét Rún, Bergljót, Krista Sól, Rakef Sjöfn og Kristrún. Neðri röð frá vinstri: Bryndís Rut, Aldís María, Laufey Harpa, Mur, Birna María, Sólveig, Hugrún, Agnes og Berglind. Á myndina vantar Guðna þjálfara, Hrafnhildi sem er fjarri góðu gamni sökum meiðsla og þá spiluðu Hallgerður, Anna Margrét, Eyvör og Lara Margrét með liðinu fyrri part sumars. Vonandi vantar Feyki ekki einhvern í upptalninguna en allir hafa gert sitt til að búa til sigurlið. Til hamingju allir Stólar – nær og fjær! MYND: GRÓA GUÐMUNDA

Lið Tindastóls og ÍA mættust í Akraneshöllinni nú undir kvöld í 17. umferð Lengjudeildarinnar. Stólastúlkur höfðu þegar tryggt sér sæti í efstu deild og lið ÍA var komið á lygnan sjó eftir basl í sumar. Eitt hékk þó eftir á spýtunni hjá liði Tindastóls en það var Lengjudeildarmeistaratitillinn. Það fór vel á því að Meistari-Mur tryggði toppsætið með enn einni meistaraþrennunni. Lokatölur voru 2-4 fyrir Tindastól eftir fjörugan leik.

Stólastúlkur náðu forystunni eftir tveggja mínútna leik þegar Jaclyn Pourcel rak tána í fyrirgjöf Hugrúnar og setti boltann í fjærhornið á eigin marki. Mur komst á blað á 29. mínútu þegar hún rak smiðshöggið á leiftursókn Stólanna. Jackie átti frábært sendingu frá miðju inn fyrir vörn ÍA þar sem Aldís María náði boltanum og komst með harðfylgi upp að markteig þar sem hún sendi boltann á Mur sem rúllaði honum í opið markið. Lið ÍA ætlaði ekki að láta rúlla sér upp á Skaganum og Erla Katrín Jóhannesdóttir minnkaði muninn eftir slysalegan varnarleik Tindastóls á 33. mínútu. Staðan 2-1 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum megnið af síðari hálfleik en í kjölfar skiptinga hjá Stólastúlkum þá jókst sóknarþunginn og þær fóru að halda boltanum betur. Þetta skilaði tveimur mörkum frá Mur á þriggja mínútna kafla. Fyrst vann Hugrún boltann á hægri kantinum, brunaði fram en átti svo fína sendingu fram á Mur sem fékk pláss til að taka boltann með sér, komast inn á teig og negla boltanum í markið á milli markmanns og nærstangar. Klassísk Mur. Á 81. mínútu átti síðan Agnes Birta 50-60 metra sendingu úr öftustu vörn inn fyrir vörn ÍA þar sem Mur koms á auðan sjó og renndi boltanum undir markvörð ÍA. Staðan orðin 1-4 og ljóst að toppsætið var í höfn. 

Bæði lið fengu þó færi eftir þetta. Skagastúlkur fengu ódýrt víti undir lok venjulegs leiktíma. Amber Michel plataði Jaclyn Pourcel til að skjóta í hægra hornið og varði, Puorcel náði boltanum aftur, hittann ekki vel og Amber varði á ný. Á 92. mínútu fengu heimastúlkur síðan hornspyrnu, Amber náði ekki til boltans og Pourcel náði að skalla í jörðina og boltinn skoppaði yfir Laufeyju á línunni og í markið. Stuttu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Stólastúlkur gátu fagnað titilinum ásamt góðum hópi stuðningsmanna sem fylgdu liðinu á Skagann.

Lokaumferð Lengjudeildarinnar fer fram föstudagskvöldið 9. október – svo fremi sem þjóðfélagið verður ekki allt komið í sóttkví! Þá kemur lið Völsungs frá Húsavík í heimsókn og bæði liðin kveðja þá Lengjudeildina. Völsungur spilar í 2. deild að ári en lið Tindastóls fer í sykurlausu Pepsi Max deildina. Það verður spennandi. En á föstudaginn gefst okkur vonandi kostur á að fagna með Stólastúlkum alveg einstökum árangri. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir