Slæmur skellur gegn sprækum Njarðvíkurstúlkum
Lið Njarðvíkur er að spila hvað best liðanna í 1. deild kvenna og þær reyndust allt of sterkar fyrir lið Tindastóls sem heimsætti gossvæðið suður með sjó í gær. Stólastúlkur sáu ekki til sólar í fyrri hálleik en í hálfleik var dagskráin búin, staðan 47-16. Heldur náðu gestirnir að stíga betur á móti í síðari hálfleik en það dugði skammt að þessu sinni. Lokatölur 94-42.
Fyrsta leikhlutann vann Njarðvík 17-8 og þann næsta 30-8 en í síðari hálfleik unnu þær þriðja leikhluta 21-12 og þann síðast 26-14. Ekki sérlega uppörvandi.
Þegar tölfræði leiksins er skoruð sést að sjálfsögðu að heimastúlkur höfðu yfirburði á öllum sviðum en þó var það helst í fráköstum sem jafnræði var með liðunum, 43/37. Lið Njarðvíkur átti 69 skot í leiknum og tók 28 víti á meðan Stólastúlkur áttu 52 skot og fengu 19 víti. Lið Tindastóls tapaði boltanum enda 27 sinnum en heimastúlkur aðeins níu sinnum. Þar með er sú saga sögð.
Marín Lind var stigahæst með 12 stig og níu fiskaðar villur. Eva Rún gerði 10 stig en Eva Wium átti erfitt uppdráttar í sókninni að þessu sinni, gerði fimm stig en tók þó átta varnarfráköst. Næsti leikur Tindastóls er í Síkinu næstkomandi laugardag en þá kemur lið Stjörnunnar í heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.