Það er gott að vinna í Kópavogi
Níundi sigur sumarsins hjá Stólastúlkum kom í kvöld á Kópavogsvelli þegar lið Augnabliks féll í valinn gegn toppliði Tindastóls. Leikurinn var lengi vel í jafnvægi þrátt fyrir að lið gestanna fengi betri færi. Fjögur mörk komu hins vegar á síðustu 35 mínútunum og 0-4 sigur styrkti enn stöðu Stólanna á toppi Lengjudeildarinnar.
Lið Tindastóls var óheppið að komast ekki yfir á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Tvisvar endaði boltinn í stönginni en Mur, Jackie og Hugrún komust allar nálægt því að brjóta ísinn. Lið Augnabliks komst síðan betur inn í leikinn en stúlkurnar úr Kópavoginum geta spilað fínan fótbolta en oft vantar að setja endahnútinn á sóknir liðsins. Staðan 0-0 í hálfleik.
Mur fékk dauðafæri eftir fimm mínútur í síðari hálfleik en hitti boltann illa. Það kom ekki að sök þar sem sjö mínútum síðar skoraði Jackie úr víti eftir að markvörður heimastúlkna tók Rakel Sjöfn niður í teignum. Á 69. mínútu skoraði Mur loks eftir sendingu fyrir markið af vinstri kanti, setti boltann í hægra hornið. Sjö mínútum síðar gerði Hugrún Helgadóttir sjálfsmark, setti hausinn í boltann eftir aukaspyrnu frá Jackie og fleytti honum í markið. Skömmu síðar átti Mur skot í stöng en hún bætti loks við öðru marki sínu á 90. mínútu, óð í gegnum vörn heimastúlkna og plasseraði boltann í hægra hornið.
Lið Tindastóls er með 28 stig að ellefu umferðum loknum, hafa tapað einum leik, gert eitt jafntefli og unnið rest. Markatalan er 30-5! Þær hafa aðeins fengið á sig mark í þremur leikjum og tvö mörk í einum leik. Þetta segir meira en mörg orð um varnarleik liðsins sem hefur verið framúrskarandi í sumar. Frammi er síðan einn besti sóknarleikmaður landsins.
Þær stúlkur sem gengu til liðs við Tindastól í upphafi ágústmánaðar hafa styrkt lið og aukið breiddina og síðan er augljóst að Mur og Jackie eru komnar í toppform eftir meiðslaströggl framan af sumri. Báðar áttu þær frábæran leik í kvöld.
Þó staða Tindastóls sé vænleg er kálið ekki sopið þó í ausuna sé komið. Það eru sjö umferðir eftir, 21 stig í pottinum, og því getur enn allt gerst. Nú á sunnudaginn kl. 16 mæta Gróttustúlkur á Krókinn og ef þær ætla að koma sér betur fyrir í toppbaráttunni, eftir nokkur slæm úrslit að undanförnu, þá þurfa þær að sækja sigur. Á Króknum bíður eftir þeim lið með bullandi sjálfstraust sem dauðlangar í smá Pepsi Max. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.