Það er bara ekkert að frétta!
Tindastóll og Ægir úr Þorlákshöfn mættust á fagurgrænum Sauðárkróksvelli í dag í 3. deild karla í knattspyrnu. Stólarnir í fallsæti fyrir leikinn en Ægismenn í séns með að komast upp í 2. deild. Heimamenn höfðu tapað síðasta leik 8-0 og frammistaðan í dag var ekki til að hrópa húrra yfir. Það reyndist gestunum allt of auðvelt að næla í stigin þrjú, gerðu tvö ódýr mörk í fyrri hálfleik og Stólarnir virkuðu aldrei líklegir til að trufla þá verulega í síðari hálfleik. Lokatölur 1-3.
Eftir skellinn í Hafnarfirði voru tveir 16 ára strákar kallaðir inn í byrjunarliðið; Einar Ísfjörð fór í markið og Bragi Skúla inn á miðjuna og þeir stóðu sig með ágætum og gaman að sjá unga spræka stráka í liðinu. Tindastólsliðið er hins vegar ekki að spila boltanum, þessa dagana gengur hroðalega illa að halda boltanum innan liðsins og langir boltar á hausinn á Pape í framlínunni skila hreinlega engu. Og fyrir lið sem er að berjast fyrir lífi sínu þá er sorglegt að sjá að andstæðingar liðsins vinna flesta seinni boltana. Að öllum líkindum spilar lítið sjálfstraust þarna inn í.
Fyrsta markið í dag kom á 35. mínútu eftir að Stólarnir spiluðu boltanum í öftustu línu, Einar í markinu fékk vonda sendingu til baka og neyddist til að reyna að leika á sóknarmann Ægis, sem mistókst, og Brynjólfur Eyþórsson renndi boltanum í markið. Í kjölfarið hneig hakan niður í bringu og næstu mínútur fóru að mestu í að nöldra í dómaranum í stað þess að einbeita sér að leiknum. Á 40. mínútu var varnarleikur heimamanna ekki upp á marga fiska þegar einföld sending inn fyrir varð til þess að Arilíus Óskarsson slapp í gegn og hafði allan tímann í heiminum til að planta boltanum í stöngina inn. 0-2 í hálfleik.
Leikurinn var rólegur í síðari hálfleik og fátt markvert gerðist þar til Addi Ólafs, nýkominn inn á, átti ágætan sprett á 66. mínútu og fiskaði aukaspyrnu rétt utan teigs. Konni tók ágæta spyrnu sem Stefán Blær í marki Ægis sló frá en Addi fylgdi á eftir og skoraði. Tindastólsmenn voru nú gíraðir í að leita að jöfnunarmarkinu en gæðin voru lítil og spilið veikt. Aðeins fimm mínútum síðar gerðu gestirnir út um leikinn með laglegu marki. Komust upp að endamörkum og sendu fasta sendingu inn á markteig þar sem Brynjólfur stangaði boltann í mark Stólanna.
Leikmenn Ægis voru hættulegri síðustu mínúturnar en fleiri urðu mörkin ekki í leiknum en að honum loknum var lið Tindastóls komið í botnsæti 3. deildar og útlitið orðið ansi svart. Helling af leikmönnum sem eru á mála hjá Stólunum vantaði (að venju) í hópinn í dag og er það eiginlega allt of langt mál og sorglegt til að velta sér upp úr. Það verður ekki kvartað undan því að leikmenn gefi sig ekki alla í verkefnið – gæðin eru bara hreinlega ekki næg eins og staðan er í dag og hálfgert ráðaleysi ríkir inni á vellinum.
En þó staðan sé strembin þá eru fjórar umferðir eftir og það er enn séns, enn tækifæri til að rétta úr kútnum. Það eru þrjú lið í fallbaráttunni og eitt þeirra mun bjarga sér – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.