Takk fyrir geggjað tímabil Tindastólsmenn!
Tindastóll og KR mættust í fjórða leiknum í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld í DHL-höllinni í Vesturbænum. Stólarnir þurftu nauðsynlega að vinna til að halda í drauminn en KR dugði sigur í kvöld. Sú varð raunin; lið KR var betra liðið og sigraði af talsverðu öryggi þrátt fyrir að Tindastólsmenn hafi aldrei gefist upp. Lokatölur voru 89-73 og óskum við KR til hamingju með fimmta titilinn í röð.
KR náði strax undirtökunum í leiknum og var yfir 24-12 eftir fyrsta leikhluta, þeir náðu 18 stiga forskoti snemma í öðrum leikhluta en staðan var 44-33 í hálfleik. Það tók Stólana aðeins tvær mínútur að minnka muninn í þrjú stig, 44-41 í byrjun þriðja leikhluta, en skömmu síðar náðu Vesturbæingar aftur vopnum sínum og Stólunum brást bogalistin í sókninni.
Sigtryggur Arnar var stigahæstur í liði Tindastóls með 27 stig, Hester var með 15 stig og tíu fráköst en öflugastur Stólanna að þessu sinni, líkt og í allri seríunni gegn KR, var Pétur sem skilaði 14 stigum, 10 fráköstum og 9 stoðsendingum. Þá má minnast á magnaða tölfræði tengda Axel en hann spilaði í 22 mínútur og á meðan hann var inn á unnu Stólarnir KR með átta stigum. Hester spilaði 34 mínútur og á meðan hann var inn á töpuðu Stólarnir með einu stigi en Davenport spilaði sex mínútur og á meðan töpuðu Stólarnir með 15 stigum. Stólunum gekk afleitlega að skora innan teigs, gerðu aðeins níu körfur í 33 tilraunum á meðan KR gerði 20 körfur í 35 skotum.
Kristófer Acox var bestur KR-inga í kvöld með 23 stig og 15 fráköst, þar af sjö sóknarfráköst.
Tímabilið hjá Stólunum hefur aldeilis verið fjörugt og skemmtilegt. Liðið varð bikarmeistari í fyrsta skipti og var grátlega nálægt því að verða Íslandsmeistari í fyrsta skipti. Lið KR reyndist of stór biti þegar á hólminn var komið.
Á morgun verða örugglega allir farnir að hlakka til haustsins. Áfram Tindastóll og takk fyrir geggjað tímabil!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.