Systkinabarátta á meistaramóti GSS

Systkinin og klúbbmeistarar GSS, Arnar Geir og Anna Karen Hjartarbörn. Myndir: Hjörtur Geirmundsson.
Systkinin og klúbbmeistarar GSS, Arnar Geir og Anna Karen Hjartarbörn. Myndir: Hjörtur Geirmundsson.

Meistaramóti Golfklúbbs Skagafjarðar lauk sl. laugardag með sigri Arnars Geirs og Önnu Karen Hjartarbörnum en leikið var frá miðvikudegi í nokkrum flokkum. Arnar og Anna eru ekki óvön að taka á móti bikurunum og meistaranafnbótinni því þau voru ríkjandi meistarar. Að sögn Kristjáns Bjarna Halldórssonar, formanns klúbbsins, tóku um 40 manns þátt í blíðu veðri sem var skemmtileg tilbreyting frá fyrri mótum.

„Við vorum afskaplega heppin með veðrið en við erum ekki óvön að hafa rok og rigningu, sunnan hvassviðri eða að norðan og allir að rigna niður í jörðina. En nú var blíðuveður og smá vindur og þetta gekk allt saman vel," segir Kristján Bjarni.

Þetta er í 9. sinn sem Arnar Geir landar klúbbmeistaratitlinum hjá GSS og nú í 8. skiptið í röð en í annað sinn sem Anna Karen ber nafnbótina. Það má með sanni segja að um nokkurs konar fjölskyldubaráttu hafi verið að ræða í mótinu því auk þeirra Arnars og Önnu stóð baráttan í næstu sætum í báðum flokkum milli systkina. Um annað sætið hjá körlunum börðust bræðurnir Atli Freyr og Hákon Ingi Rafnssynir, þar sem Atli hafði það á einu höggi og systurnar Hildur Heba og Telma Ösp Einarsdætur þurftu að taka þriggja holu umspil um hvor næði öðru sætinu sem á endanum kom í hlut Telmu.

Verðlaunaafhending fór fram á árshátíð klúbbsins um kvöldið sem Kristján Bjarni segir að hafi heppnast faramar vonum en meðal atriða tóku Geirmundur Valtýsson og Róbert Óttarsson nokkur lög, Kristinn Gísli Jónsson kokkaði eðalrétti og séra Hjálmar Jónsson var veislustjóri. „Danssveit Dósa héldu svo uppi heljarstuði og var svo á tímabili að allir veislugestir voru á dansgólfinu. Maður var pínu smeykur eftir kóvid hvort fólk þyrði að dansa, hvort um tapaða kunnáttu eða hæfni væri að ræða en það var nú heldur betur ekki. Mikið stuð og hátíðlegt og endaði á besta veg,“ segir Kristján Bjarni að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir