„Svona fer þetta stundum og við áttum að gera betur,“ segir Helgi Freyr. Stólar taka á móti Stjörnunni í kvöld

Síðustu sex leikir í Domino´s deild karla í körfubolta fara fram í kvöld áður en úrslitakeppnin sjálf hefst og kemur þá í ljós hvaða lið parast saman í þeirri keppni. Tindastóll tekur á móti Stjörnunni í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld og geta úrslitin haft áhrif á hvaða lið Tindastóll fær sem andstæðing í úrslitakeppninni. Aðrir leikir kvöldsins eru: Höttur – Njarðvík, Keflavík – ÍR, Haukar – Valur, Grindavík        - Þór Ak. og Þór Þ. – KR. allir leikirnir hefjast klukkan 19:15.

Feykir hafði samband við Helga Frey og spurði hann út í hinn mikla spennuleik Stólanna gegn Njarðvík sl. mánudagskvöld í Ljónagryfju þeirra Suðurnesjamanna.

„Ég veit ekki hvað skal segja. Þetta var skemmtilegur leikur að spila og örugglega áhorfendavænn. Við komum ekki klárir í leikinn og byrjum illa, sérstaklega varnarlega og þeir hittu svakalega vel í fyrsta leikhluta. Við náum svo að snúa þessu í öðrum leikhluta og stýrum leiknum frá því. Við erum svo yfir 7-9 stigum þegar skammt er eftir og gerum þá mistök bæði sóknarlega og varnarlega og á móti eru þeir að setja skot og með skotrétt,“ segir Helgi.

Hann nefnir að villunum hafi ekki verið dreift jafn í lok leiks þar sem aðeins var dæmd ein villa á Njarðvík allan fjórða hluta og fyrstu framlengingu á meðan Stólar fengu dæmdar níu villur á sig.

„Þetta skipti máli því við þurftum að berjast fyrir okkar stigum þegar þeir voru að skora á vitalinunni hinumegin. Svona fer þetta stundum og við áttum að gera betur, ekkert stórt en mörg smáatriði sem við klikkuðum á og skiluðu þessari niðurstöðu.“

Deildarmeistaratitillinn fer annað í ár og segir Helgi það auðvitað vera vonbrigði. „Við klúðruðum því alveg sjálfir en það er bara þannig, nú hefst úrslitakeppnin og það er ný keppni og við með heimavallarétt sem gefur okkur vonandi forskot í fyrstu umferðinni.“

Á Facebooksíðu Körfuboltadeildar Tindastóls segir að búast megi við hörkuleik eins og svo oft áður á milli þessara liða. Hamborgararnir verða á sínum stað og allir hvattir til að mæta og styðja hressilega við bakið á strákunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir