Svekkjandi jafntefli á Sauðárkróki
Strákarnir í Tindastóli tóku á móti Sindra frá Höfn í Hornafirði í blíðskaparveðri á Sauðárkróki í dag. Stólarnir hafa verið í smá basli það sem af er sumri en fyrir leikinn sátu þeir í tíunda sæti þriðju deildarinnar með fjögur stig og Sindri í því áttunda með átta stig. Leikurinn fór 3:3 en bæði lið skoruðu sitthvort markið í uppbótartíma.
Fyrir leikinn fékk Arnar Ólafsson blómvönd en hann var að spila sinn 100. leik fyrir Tindastól. Arnar er fæddur árið 1998 og spilaði sinn fyrsta leik fyrir Stólanna árið 2014 þegar að þeir voru í 1. deild.
Sindramenn komust yfir á sjöundu mínútu þegar að Abdul Bangura skoraði. Hornfirðingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en Atli Dagur stóð sig frábærlega í dag og varði nokkur dauðafæri Sindramanna glæsilega. Haukur Skúlason, þjálfari Tindastóls, hefur sagt eitthvað rétt við sína menn í hálfleik því að í byrjun seinni hálfleiks skoruðu Stólarnir tvö mörk með stuttu millibili. Fyrst á 48. mínútu þegar að Halldór Broddi átti fyrirgjöf á Pape sem reis manna hæst upp í teignum og skallaði boltann í netið, og síðan á 49. mínútu þegar að Konni átti góða stungusendingu inn á Raul sem renndi boltanum á Arnar sem skoraði auðveldlega.
Hornfirðingar jöfnuðu leikinn á 81. mínútu þegar að Robertas Freidgeimas skoraði úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateigshorn Tindstóls. Það var þó mat heimamanna að aukaspyrnan hafi verið tekin á vitlausum stað. Seinustu mínútu leiksins voru heldur betur fjörugar en á 90. mínútu spólaði Arnar Ólafs sig í gegnum vörn Sindramanna og lagði boltann á Halldór Brodda sem skoraði og Tindastóll komnir yfir. Heimamenn voru þó ekki lengi í paradís því að á 94. mínútu skoraði Blönduósingurinn og fyrrverandi leikmaður Hvatar og Tindastóls, Kristinn Justiniano Snjólfsson, en hann slapp einn í gegn og kláraði færið listilega.
Tindastólsmenn voru afar svekktir þegar flautað var til leiksloka og virðist ekkert ætla að falla með þeim í sumar.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.