Stúlkurnar hans Brynjars Karls mörðu sigur
Stólastúlkur héldu suður yfir heiðar í gær og léku við sameinað lið Aþenu/UMFK í 1. deild kvenna í körfubolta. Úr varð hörkuleikur þar sem heimastúlkur á Jaðarsbökkum reyndust sterkari þegar upp var staðið, þrátt fyrir að Ksenja ætti stórleik í liði Tindastóls í sínum síðasta leik með liðinu. Lokatölur voru 90-84 fyrir heimastúlkur.
Feykir hafði samband við Evu Rún Dagsdóttur, sem var fyrirliði Tindastóls í fjarveru Telmu Aspar, og spurði út í leikinn. „Leikurinn í gær var hörkuleikur. Aþena er með sterkan leikmannahóp sem vann okkur í frákastabaráttunni. Við byrjuðum leikinn betur, Ksenja setti niður tvo þrista strax í byrjun, og við vorum yfir eftir fyrsta leikhluta. Aþena náði að fylgja okkur og höfðu forystuna í hálfleik. Í seinni hálfleik stungu Aþena okkur svolítið af en við vorum aldrei langt á eftir þeim,“ sagði Eva Rún.
„Ksenja fór á kostum í leiknum í gær og var stigahæst í liðinu með 34 stig,“ sagði Eva þegar Feykir spurði út í stórleik þeirrar slóvensku. „Hún spilaði leikinn eins og þetta væri hennar seinasti leikur fyrir okkur, sem var reyndar raunin. Hún er því miður hætt í Tindastól, og í körfubolta, og farin aftur heim til Slóveníu. Við þökkum henni kærlega fyrir samveruna síðustu mánuði og óskum henni alls hins besta! Við munum klárlega sakna hennar mikið og að hafa hana í liðinu,“ segir Eva að lokum.
Lið Aþenu bjó til gott forskot í fjórða leikhluta
Eins og Eva segir þá byrjaði lið Tindastóls betur og var yfir 21-23 að loknum fyrsta leikhluta. Lið Aþenu/UMFK komst yfir eftir nokkurra mínútna leik í öðrum leikhluta en Ksenja svaraði að bragði. Heimastúlkur náðu þó yfirhöndinni þegar á leið og voru yfir, 48-44, í hálfleik. Þær náðu að auka muninn fljótlega í síðari hálfleik, komust í 59-50, en körfur frá Ksenju og Maddie minnkuðu muninn í tvö stig og leikurinn í járnum. Staðan var 65-59 þegar lokafjórðungurinn hófst og tveir þristar frá Önnu Karen sáu til þess að Stólastúlkur héldu í við heimastúlkur. Í stöðunni 74-69 skutust stúlkurnar hans Brynjars Karls fram úr, náðu 13 stiga forystu, en þrátt fyrir erfiða stöðu gáfust gestirnir ekki upp og Maddie minnkaði muninn í fimm stig, 89-84, þegar tæp hálf mínúta var eftir. Það dugði þó ekki til og sigur Aþenu/UMFK staðreynd.
Ksenja átti sinn langbesta leik í liði Tindastóls, gerði 34 stig, tók fimm fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Framlagshæst var þó Maddie en hún gerði 31 stig og tók 14 fráköst. Anna Karen gerði átta stig og Rebekka Hólm sex.
Síðasti leikur Stólastúlkna í fyrri umferð 1. deildar fer fram 18. desember en þá kemur lið Fjölnis B í heimsókn í Síkið. Það er ekki langt jólafríið því síðari umferðin hefst strax þann 2. janúar. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.