Stórsigur Stólastúlkna í Smáranum

Rebekka Hólm Halldórsdóttir átti fínan leik í dag, gerði ellefu stig og tók sex fráköst. MYND: DAVÍÐ MÁR
Rebekka Hólm Halldórsdóttir átti fínan leik í dag, gerði ellefu stig og tók sex fráköst. MYND: DAVÍÐ MÁR

Stólastúlkur sóttu b-lið Breiðablik heim í Smárann í dag en í fyrstu umferð Íslandsmótsins þá var það eina liðið sem Tindastóll náði að leggja í parket. Sá leikur 95-26 heima í Síkinu og það voru því væntingar um að bæta mætti tveimur stigum á töfluna í dag. Þrátt fyrir að heimastúlkur hafi bætt leik sinn frá því í haust þá áttu þær ekki roð í lið Tindastóls sem vann öruggan sigur, 61-113.

Ingigerður gerði fyrstu körfu leiksins fyrir Tindastól en Selma jafnaði fyrir Breiðablik. Næstar á blað voru Emese og Chloe og lið Tindastóls komið með yfirhöndina og létu forystuna aldrei af hendi eftir þetta. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 19-32 og Blikaliðið því nánast búið að skora jafn mikið í fyrsta leikhluta og öllum leiknum hér heima. Í öðrum leikhluta tóku gestirnir síðan öll völd og unnu hann 14-38 og staðan í hálfleik því 33-70!

Heldur hægðist á liði Tindastóls í síðari hálfleik en Pat gaf að venju öllum tækifæri til að stíga dansinn og Emese, Chloe og Eva Rún, sem oftar en ekki spila nánast hverja sekúndu, fengu aðeins færri mínútur en vanalega. Þriðji leikhlutinn vannst 10-20 og lokaleikhlutinn 18-23 og vonandi færir sigurinn stelpunum sjálfstraust eftir sjö tapleiki í röð.

Venju samkvæmt var Chloe stigahæst en hún gerði 40 stig í dag og var með 68% skotnýtingu (17/25). Emese Vida skilaði 27 stigum á töfluna og hún tók 18 fráköst, Eva Rún var með tólf stig, sjö fráköst og tólf stoðsendingar og þá voru Rebekka Hólm og Klara Sólveig báðar með ellefu stig.

Það er stutt á milli leikja í kvennakörfunni og nú á miðvikudag mætir lið Þórs Akureyri með Maddie, Marínu og Kristínu innanborðs í Síkið – að Karenu Lind og Evu Wium ógleymdum. Lið Þórs er sterkt og er með tólf stig að loknum níu leikjum. Það væri óvitlaust að mæta í Síkið og styðja Stólastúlkur til sigurs. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir