Stólastúlkur tryggðu sér í dag efsta sætið í C-riðli
Það var þunnskipaður hópur Tindastólsstúlkna sem spilaði á Höfn í Hornafirði í dag þegar þær sóttu lið Sindra heim. Lið Tindastóls var yfir í hálfleik en lokatölur urðu 3–3 og jafntefli því staðreynd eftir sex sigurleiki í röð. Stigið dugði þó til að tryggja stelpunum toppsætið í C-riðli 1. deildar og sætið í úrslitakeppninni því gulltryggt.
Elín Sveinsdóttir kom Stólastúlkum yfir á 6. mínútu en Ingibjörg Ragnarsdóttir jafnaði fyrir Sindra skömmu síðar. Leikmaður í liði heimastúlkna gerði síðan sjálfsmark rétt áður en flautað var til hálfleiks og staðan því 1-2. Vigdís Edda Freiðriksdóttir bætti stöðu Stólanna á 50. mínútu en Sindrastúlkur gáfust ekki upp og náðu að jafna áður en yfir lauk. Fyrst minnkaði Sydnie Telson muninn á 68. mínútu og loks gerði Ingibjörg annað mark sitt, og jöfnunarmark Sindra, með marki úr vítaspyrnu á 80. mínútu.
Aðeins 13 stúlkur voru á skýrslu hjá liði Tindastóls og þ.á.m. vantaði Jesse Shugg sem meiddist í síðasta leik. Stelpurnar spila hér heima á þriðjudagskvöld og lokaleikurinn í riðlinum verður síðan á fimmtudag þegar Stólastúlkur mæta liði Völsungs á Húsavík. Lið Tindastóls er og verður efst í sínum riðli en stelpurnar eru komnar með 19 stig og eiga tvo leiki eftir. Liðin í 2.-4. sæti eru öll með 16 stig og hafa lokið leik í riðlinum.
Úrslitakeppni 1. deildar kvenna hefst síðan 3. september en í henni taka átta lið þátt; þrjú efstu liðin úr A- og B-riðli fara áfram og tvö lið úr C-riðli sem Tindastólsstúlkur hafa sigrað. Þær munu mæta liðinu sem endar í þriðja sæti B-riðils heima og að heiman og mæta annað hvort liði Keflavíkur, Augnabliks eða Fjölnis sem berjast um þriðja sætið í B-riðli. Sigurvegararnir í átta liða úrslitum fara síðan í undanúrslit og sigurvegarar í undanúrslitum leika í úrvalsdeild kvenna að ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.