Stólastúlkur taka á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld

Styðjum Stólastúlkur í kvöld. MYND: ÓAB
Styðjum Stólastúlkur í kvöld. MYND: ÓAB

Það er ósennilegt að einhverjir hafi átt von á því fyrir örfáum misserum að meistaraflokkslið Tindastóls í knattspyrnu tæki á móti verandi Íslandsmeisturum í leik í deildarkeppni. En það er þannig dagur í dag því í kvöld kemur léttleikandi lið Íslandsmeistara Blika úr Kópavoginum á Krókinn þar sem baráttuglaðar Stólastúlkur bíða spenntar eftir þeim. „Íslandsmeistararnir á Sauðárkróksvelli var einn af þessum leikjum sem maður horfði strax til þegar leikjaplanið var gefið út í vor,“ sagði Guðni Þór, annar þjálfara Stólastúlkna, við Feyki nú skömmu fyrir hádegi. „Við höfum mætt þeim tvisvar í sumar og gefið hörkuleik í bæði skiptin og ég á von á því að það sama verði uppi á teningnum í kvöld, mikil barátta og ekkert gefið eftir.“

Breiðablik er í öðru sæti Pepsi Max deildarinnar sem stendur en þær töpuðu stigum á Akureyri í síðustu umferð og má því búast við að þær mæti grimmar til leiks í kvöld. Liðin hafa mæst tvívegis í sumar, í deild og bikar, og fóru báðir þeir leikir fram í Kópavogi en Blikar unnu þá báða með eins marks mun.

Guðni segir að staðan á hópi Tindastóls sé góð. „Flestir leikmenn eru heilir og leikurinn leggst virkilega vel í hópinn. Við þjálfarar finnum fyrir góðri stemmningu í hópnum og tilhlökkun að mæta sterku liði Blika í þriðja sinn í sumar. Eins og hefur oft sannað sig þá er stuðningur ykkar frábæru stuðningsmanna okkur ótrúlega dýrmætur. Hvet ykkur til að fjölmenna, hvetja liðið áfram á jákvæðan hátt og njóta leiksins með okkur. Áfram Tindastóll!“

Eins og allir ættu að hafa tekið eftir þá hefur verið hert á Covid-reglum frá í júlí. Að sögn Svavars Viktorssonar hjá knattspyrnudeild Tindastóls þarf fólk að skrá sig við komuna á völlinn, það er grímuskylda og óskyldir aðilar þurfa að passa upp á að halda eins meters fjarlægð.

Leikurinn hefst kl. 19:15 á gervigrasinu en veðurspáin gerir ráð fyrir sól og 13 stiga hita og notalegum norðan andvara á meðan á leik stendur. Það er alltaf veisla á Króknum!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir