Stólastúlkur styrktu stöðu sína á toppi Lengjudeildarinnar
Kvennalið Tindastóls tók á móti liði Víkings Reykjavík í Lengjudeildinni í kvöld en þetta var lokaleikurinn í 10. umferð. Eins og oft áður í sumar þá reyndust Stólastúlkur of sterkar fyrir andstæðinga sína og ekki var það til að auðvelda gestunum lífið að Murielle Tiernan er í stuði í framlínu Tindastóls þessa dagana. Lokatölur í kvöld voru 3-0 og stelpurnar okkar með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.
Það var hið fínasta veður til fótboltaiðkunar í kvöld, yfir 10 stiga hiti og hæggeng suðvestanátt. Fyrir leik var Hrafnhildi Björnsdóttur færður blómvöndur í tilefni af því að hún hefur spilað 100 leiki fyrir Tindastól. Það tók Mur aðeins fimm mínútur að finna markið en hún komst í fínt færi og kláraði af öryggi. Leikurinn var jafn næstu mínúturnar en lið Víkings spilaði boltanum ágætlega en höfðu lítið upp úr krafsinu. Þó fengu gestirnir hálffæri eftir samskiptaerfiðleika í vörn Tindastóls en Amber og félögur hennar björguðu málum áður en í óefni var komið. Sóknir heimastúlkna voru beinskeittari og hættulegri og Hugrún og Mur voru líflegar og líklegar. Annað mark Mur í leiknum kom á 31. mínútu, glæsimark, hörkuskot efst í markið af löngu færi. Eftir þetta voru Tindastólsstúlkur mun líklegri til að bæta við mörkum og hornspyrnur Jackie sköpuðu ítrekað hættu. Staðan þó 2-0 í hálfleik.
Smá slen var yfir Stólastúlkum í upphafi síðari hálfleiks og gestirnir náðu að ógna aðeins marki Tindastóls en Amber var á tánum og greip vel inn í. Um leið og Stólastúlkur fóru að láta boltann ganga og héldu honum betur þá fóru að skapast færi. Þriðja markið leit dagsins ljós á 69. mínútu og það gerði Aldís María en hún hafði komið inn á sem varamaður tveimur mínútum áður. Laglegt mark eftir fína sókn. Mur fékk nokkur færi til að bæta við mörkum og Bryndís var nálægt því að skora eftir hornspyrnu en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 3-0 og sanngjarn sigur staðreynd.
Lið Tindastóls virkar eins og vel smurð vél þessa dagana. Vinnusemin og metnaðurinn til fyrirmyndar og breiddin í hópnum góð. Liðið hefur aðeins fengið á sig fimm mörk í tíu leikjum og það eru ótrúlegar framfarir frá því í fyrra. Frammi er Mur engri lík, krafturinn, áræðnin og snilldin eiginlega einstök. Hún er nú komin með 13 mörk í tíu leikjum og spilaði meidd framan af móti. Í heildina var leikur Tindastóls kannski ekki stórkostlegur, stelpurnar gerðu það sem þurfti og voru í raun aldrei í vandræðum.
Næsti leikur Stólastúlkna er gegn liði Augnablika nk. fimmtudagskvöld á Kópavogsvelli. Sunnudaginn 6. september kemur síðan lið Gróttu í heimsókn á Krókinn. Það er auðvitað skítt fyrir stuðningsmenn að fá ekki tækifæri til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar í baráttunni um sæti í efstu deild. Það hlýtur að styttast í það. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.