Stólastúlkur létu rigna mörkum í rigningunni

Stólastúlkur fagna góðum sigri. MYND: ÓAB
Stólastúlkur fagna góðum sigri. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls tók á móti liði Gróttu af Seltjarnarnesi í Lengjudeildinni í dag í hellirigningu. Líkt og í síðustu leikjum var Tindastólsliðið sterkara en andstæðingurinn á báðum endum vallarins og uppskáru því tíunda sigur sumarsins. Mur hélt áfram að hrella markverðina í deildinni en hún bætti enn einu hat-trickinu í safnið sitt en lokatölur voru 4-0 og liðið í fjórða sæti lítil fyrirstaða þrátt fyrir að spila ágætan fótbolta á köflum.

Sem fyrr segir var ausandi rigning allan leikinn og hálf leiðinlegur sunnan vindur þvert á gervigrasvöllinn. Liðin gerðu þó ágætlega í að spila boltanum en að sjálfsögðu var það Mur sem fékk bestu færin. Fyrsta markið kom eftir hálftíma leik, Mur fékk boltann inni á vallarhelmingi gestanna og gat snúið og nýtt styrk sinn og hraða til að komast inn fyrir vörnina, inn á teig og setti boltann af öryggi í vinstra hornið. Hugrún Páls var frísk og barðist um alla bolta frammi og hún komst í ágætt færi en setti boltann í hliðarnetið utanvert. Staðan 1-0 í hálfleik.

Það tók lið Tindastóls rétt rúma mínútu að bæta við forystuna í síðari hálfleik. Mur vann boltann, sendi til baka á Hrafnhildi sem átti fína sendingu yfir á fjærstöng þar sem Jackie klippti boltann snyrtilega í markið. Stólastúlkur ógnuðu svolítið eftir þetta en síðan kom besti kafli Gróttu og þær pressuðu töluvert og sóttu að marki heimastúlkna eftir að hafa unnið boltann hvað eftir annað á miðjunni. Amber greip ágætlega inn í nokkrum sinnum og vörnin stóð fyrir sínu. Það var augljóslega kominn tími til að setja fríska fætur inn á. Mur gekk frá leiknum á fimm mínútna kafla upp úr miðjum hálfleik. Fyrst skilaði hún aukaspyrnu frá Jackie í markið á 72. mínútu og fimm mínútum síðar fékk hún boltann inni á vítateignum eftir góða vinnu á vinstri kantinum frá Laufeyju Hörpu og Aldísi Maríu. Mur skilaði boltanum í markið af öryggi.

Lið Tindastóls er sterk heild þessar vikurnar. Það eru ekki gerð mörg mistök og andstæðingarnir fá ekki mörg færi til refsa. Á köntunum er vinnusemin til fyrirmyndar, vörnin er örugg, Jackie er farin að blómstra á miðjunni fyrir framan Hrafnhildi og Láru og Amber er pottþétt á milli stanganna. Og síðan er Mur frammi og í Lengjudeildinni er það eins og að vera með Messi eða Ronaldo í liðinu – þú hefur fyrirfram forskot á lið andstæðinganna. Einhvern daginn fagnar hún kannski marki almennilega?

Lið Tindastóls er efst í Lengjudeildinni með 31 stig en Keflavík kemur í humátt á eftir með 27 stig. Lið Keflavíkur marði sigur á Skagastúlkum í dag, gerðu eina mark leiksins rétt fyrir leikslok. Grótta er sennilega úr leik í baráttunni um sæti í Pepsi Max-deildinni með tapinu á Króknum í dag. Baráttan er því á milli Tindastóls, Keflavíkur og Hauka um þau tvö sæti sem í boði eru, flest liðin hafa nú leikið tólf leiki en spilaðar eru 18 umferðir í deildinni. Haukar eru með 20 stig en eiga tvo leiki til góða. Tindastóll og Haukar eiga eftir að mætast á Króknum og síðan eiga Keflavík og Haukar eftir að mætast tvívegis. Staðan á Króknum er því góð og spennandi leikir framundan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir