Stólasigur í baráttuleik á Króknum
Tindastóll spilaði fyrsta heimaleik sumarsins á Króknum í gærkvöldi en þá komu baráttuglaðir Þróttarar úr Vogum á Vatnsleysuströnd í heimsókn. Stólarnir voru betra liðið í fyrri hálfleik en gestirnir létu sverfa til stáls í þeim síðari. Þegar upp var staðið voru það þó heimamenn sem höfðu betur og fögnuðu um leið toppsætinu í 3. deild.
Það var hlýtt og stillt á Króknum í gærkvöldi þegar leikurinn hófst en það dropaði aðeins af og til og að sjálfsögðu mætti einn aðal stuðningsaðili Stólanna þegar á leið, sjálf Skarðagolan. Aðstæðar voru þó hinar bestu til að spila fótbolta og það reyndu bæði lið.
Tindastólsmenn voru mun betri framan af leik og áttu í raun að vera komnir með forystu áður en fyrsta markið leit dagsins ljós á 14. mínútu. Það gerði Kenneth Hogg þegar hann fylgdi eftir skoti Ragnars Gunnarssonar. Stólarnir fengu síðan nokkur færi fram að hléi en virtist fyrirmunað að hitta eitthvað annað en markmann Þróttara, sem fyrir vikið var farinn að halda að hann væri snillingur milli stanganna.
Gestirnir sóttu gegn vindi í síðari hálfleik en komu stálhressir til leiks og hófu þegar að ógna marki Tindastólsmanna reglulega og létu finna hraustlega fyrir sér. Þeir jöfnuðu metin á 54. mínútu með marki Sölva Pálssonar í kjölfar þess að Stólarnir voru kærulausir með boltann á eigin vallarhelmingi. Stólunum gekk illa að finna taktinn eftir þetta og Þróttarar efldust að sama skapi. Á 60. mínútu voru þeir sannarlega óheppnir að ná ekki forystunni en þá skutu þeir þrívegis í austurstöng suðurmarksins (!) en allt kom fyrir ekki. Fannar Kolbeins kom inn í vörn Stólanna skömmu síðar og hann átti frábæra sendingu upp hægri kantinn á 70. mínútu, Vilhjálmur Kaldal gerði vel og kom sér inn á vítateig Þróttara, upp að endamörkum og renndi þá boltanum fyrir á Benedikt Gunnlaugarson sem afgreiddi boltann af öryggi í markið. Markið kom talsvert gegn gangi leiksins.
Eftir þetta æstust leikar talsvert og dómarinn, sem ekki hafði nú verið sérlega sannfærandi fram að því, flautaði af og til ef honum ofbauð eitthvað. Hálf voru það nú falskir tónleikar og leikmenn oft hálf gáttaðir á hvert dómarinn benti. Voru bekkir liðanna og leikmenn orðnir ansi æstir og lukka að ekki sauð upp úr. Þróttarar pressuðu stíft síðustu mínúturnar og dældu boltum inn í konugsríki Bjarka Más og hans hirðar en uppskáru lítið. Stólarnir fengu nokkur frábær færi til að gera út um leikinn í skyndisóknum en virtust rosalega ánægðir með eins marks forystuna og sóuðu hverju færinu af öðru af fagmennsku. Þeir fögnuðu ynnilega þegar dómarinn flautaði leikinn af eftir margar langar viðbótarmínútur. Lokastaðan 2-1 fyrir Tindastól.
Leikurinn var ansi skemmtilegur og barátta allt til loka. Tindastólsmenn sýndu góð tilþrif í fyrri hálfleik og héldu boltanum ágætlega. Harkan sem gestirnir mættu með í leikinn í síðari hálfleik sló vopnin úr höndum heimamanna en þegar á leið leikinn varð ljóst að það voru meiri gæði í leik Tindastóls. Sigurinn var því sanngjarn.
Næsti leikur Tindastóls er í Garðinum föstudaginn 1. júlí þar sem topplið deildarinnar mætast. Leikurinn hefst kl. 20:00. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.