Stólarnir vöknuðu of seint í Garðabænum

Darrel Lewis var bestur í liði Tindastóls.
Darrel Lewis var bestur í liði Tindastóls.

Stjarnan og Tindastóll mættust í spennandi körfuboltaleik í Garðabænum síðastliðið föstudagskvöld. Sóknarleikur Stólanna var varla til staðar í fyrri hálfleik en í þeim síðari létu þeir sverfa til stáls en boltinn fell betur fyrir Garðbæinga á lokamínútunum og þurftu Tindastólsmenn því að hverfa stigalausir úr svefnbænum. Lokatölur 81-76.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og sáu Tómas Heiðar Tómasson og Marvin Valdimarsson um stigaskorið hjá þeim í upphafi. Þeir komust í 14-7 en 3ja stiga karfa frá Viðari lagaði stöðuna. Stólarnir náðu þá að berja vörnina í gang en sama gerðu Stjörnumenn og hægðist nú talsvert á stigaskori leiksins. Justin Shouse átti þó síðasta orðið í fyrsta leikhluta, setti niður þrist og staðan 23-16.

Annar leikhluti einkenndist af mikilli baráttu en lítilli fegurð í sókninni. Mikið var um stolna bolta og vondar sendingar hjá báðum liðum. Það var helst Helgi Rafn sem setti niður fyrir Stólana og einhvernveginn héngu Tindastólsmenn í Stjörnunni framan af. Þegar þrjár og half mínúta var til leikhlés og staðan 30-26 kom góður sprettur hjá heimamönnum sem gerðu 12 stig í röð. Helgi Rafn svaraði og Viðar setti niður mikilvægan þrist úr horninu til að halda Stólunum inni í leiknum. Staðan 43-31 í hálfleik.

Shouse og Coleman gerðu fyrstu tvær körfurnar eftir hlé, munurinn 16 stig og útlitið orðið ansi dökkt hjá Stólunum. Þá hinsvegar hrökk sóknarleikurinn í gang og Lewis fór heldur betur að láta til sín taka. Bæði lið skoruðu grimmt en smá saman kviknaði líka neistinn í vörn Stólanna og síðustu fimm mínútur leikhlutans náðu Stólarnir 18-7 kafla. Kafla sem endaði með því að Jerome Hill skoraði fyrstu stig sín í leiknum af vítalínunni. Staðan 63-61 og allt í járnum fyrir lokakaflann.

Hill hafði verið arfaslakur framan af leik og hafði Jou Costa ekkert notað hann í síðari hálfleik en setti hann inn rétt fyrir lok leikhlutans og þá var heldur betur kraftur hlaupinn í kappann. Hann barðist um á hæl og hnakka í fjórða leikhluta. Lewis kom Stólunum yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar sjö mínútur voru eftir, 66-67. Stjarnan náði aftur yfirhöndinni en Hill minnkaði muninn í 73-72 og næstu körfu gerði Pétur og kom Stólunum yfir. Coleman svaraði fyrir Stjörnuna en Hill svaraði að bragði, staðan 75-76 og þrjár mínútur eftir. Nú var hins vegar illt í efni hjá Stólunum því góð barátta hafði í för með sér að bæði Helgi Rafn og Darrel Flake voru komnir með fimm villur og þeirra naut því ekki á mikilvægum lokakafla. Í næstu sóknum gerðu Stólarnir sig seka um mistök í sókninni og heimamenn gengu á lagið. Þeir komust meira að segja upp með að hirða sóknarfráköst á ögurstundu og því fór sem fór. Fimm stiga tap Stólanna staðreynd.

Lewis var magnaður í liði Tindastóls og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Hann endaði með 20 stig, 12 fráköst og átta stoðsendingar. Helgi Rafn átti sömuleiðis fínan leik, gerði 17 stig en fékk fimmtu villuna sína fyrir litlar sakir þegar rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum. Flake var fínn og Pétur átti ágætan leik, gerði átta stig og var með fimm stoðsendingar og fimm stolna bolta.

Hjá Stjörnunni var Shouse að venju erfiður og dró vagninn þegar á þurfti að halda. Sterk innkoma Tómasar Hilmarssonar, sem hnuplaði mikilvægum sóknarfráköstum á lokakaflanum, skipti sköpum um útkomu leiksins. Tómas og Coleman voru sömuleiðis góðir.

Næsti leikur Tindastóls er heima í Síkinu fimmtudaginn 21. Janúar en þá kom Raggi Nat og félagar í Þór Þorlákshöfn í heimsókn og má búast við heilmiklum slag. Allir í Síkið – áfram Tindastóll.

Stig Tindastóls: Darrel Lewis 20, Helgi Rafn 17, Jerome Hill 11, Darrel Flake 8, Pétur Rúnar 8, Helgi Freyr 6 og Viðar 6.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir