Stólarnir lágu í valnum og nályktin eykst í botnbaráttunni
Valur og Tindastóll áttust við í Dominos deild karla í Origo-höllin á Hlíðarenda í gærkvöldi. Mikið var undir hjá báðum liðum sem sátu í 8. og 9. sæti með jafnmörg stig og ljóst að með sigri næði viðkomandi að hífa sig upp úr botnbaráttunni og vel inn í hóp þeirra átta sem fara í lokakeppni Íslandsmótsins. Svo fór að eftir spennandi lokamínútur höfðu heimamenn betur með 90 stigum gegn 79 stigum Stóla og tylltu sér fyrir vikið í 6. sætið en Stólar sitja eftir og verma það níunda með 12 stig.
Njarðvík getur jafnað Stóla að stigum með sigri í kvöld gegn Keflavík, efsta liði deildarinnar, og Höttur mætir í Síkið á sunnudag og ætla sér að minnka bilið í tvö stig. Á botninum sitja svo Haukar, sem nýverið losuðu sig við Króksarann Israel Martín, með 6 stig.
Það er óhætt að segja að gengi Tindastóls hefur valdið stuðningsmönnum miklum vonbrigðum í vetur sem vilja sjá liðið í toppbaráttu en ekki á botninum að berjast fyrir tilveru sinni í deildinni og hverfandi líkum á sæti í úrslitakeppni. Hvað veldur slæmu gengi er margþætt og velta sófaspekingar vöngum og kenna ýmist þjálfara um eða einstökum leikmönnum. Ljóst er þó öllum að stöðuleika vantar í liðið og meiri samhæfingu leikmanna en svo virðist sem illa hafi gengið að búa til heilstætt lið úr frambærilegum einstaklingum. Bestu synir, og fóstursynir, Tindastóls eru svipur hjá sjón miðað við fyrri ár og verða að stíga upp úr meðalmennskunni, en í gær skoraði byrjunarliðið 73 stig en bekkur aðeins 6, sem er ekki boðlegt. Nýir leikmenn hafa ekki náð að heilla nokkurn mann, nema kannski þjálfara og stjórn deildarinnar. Reyndar má sjá meiri gleði og baráttuanda í liðinu eftir komu Flenard Whitfield og vonandi nær sá meðbyr að fylla seglin seinni hluta deildarinnar og bjargi liðinu frá falli. Það er greinilegt að Tomsick átti að vera tromp liðsins í vetur en hefur algerlega brugðist. Það vantar ekki að hann getur skotið fyrir utan þriggja stiga línuna en þá er það upptalið.
Leikurinn í gær var sveiflukenndur og á margan hátt skemmtilegur og spennandi en um leið fullur af mistökum og vonbrigðum. Valsmenn gerðu nokkrar atlögur við að skilja gestina eftir í rykmekki og tóku góða forystu í fyrsta leikhluta en Stólar náðu að berja í brestina og jafna undir lokin en staðan eftir fyrsta leikhluta 22 – 21. Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta, Valsmenn með áhlaup og ná 42:31 forystu upp úr miðjum leikhluta og leggja grunn að sigri sínum með því að skora 29 stig gegn 18 í þeim fjórðungi. Staðan í hálfleik 51:39.
Í upphafi síðari hálfleik voru Valsmenn ákveðnari og juku forskotið enn frekar og staðan orðin erfið fyrir Stóla um miðbik leikhlutans þar sem heimamenn leiddu með 17 stigum 67:50. Stólar klóruðu aðeins í bakkann og löguðu stöðuna lítillega áður en lokakaflinn hófst, 72:58.
Í lokafjórðungi leiksins virðist „áfram gakkið“ hjá fyrirliðanum hafa virkað því nú söxuðu gestirnir á forskot heimamanna jafnt og þétt og staðan orðin 78:73 þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir náðu Stólar að laga stöðuna enn frekar og fjögur stig skildu liðin að, 81:77 og allt í einu virtist allt vera hægt og spennan í hámarki, en nei. Allur vindur úr norðanmönnum sem bættu aðeins við tveimur stigum meðan Valsmenn sigldu sigrinum í höfn með níu stigum sem öll komu úr vítaskotum. Lokastaða 90:79.
Næstu þrír leikir Tindastóls verða heima í Síkinu og þá þarf að vinna til að eiga einhvern séns á sæti í úrslitum eða það sem grátlegt er að nefna, að bjarga sér frá falli. Næsta sunnudag koma Hattarmenn, sem hafa verið að bíta frá sér undanfarið og til alls líklegir, á Krókinn en þeir eru sem stendur í fallsæti sem þeir vilja örugglega kveðja. Fimmtudaginn 25. mars mætir lið Þórs á Akureyri en eins og staðan er núna er það inni í úrslitum, stigi á undan Stólum og komnir með hörku lið. Þorlákshafnar-Þórsarar koma svo þann 28. en þeir hafa heldur betur komið á óvart í vetur og verma nú annað sætið í deildinni með 20 stig.
Nú er að duga eða drepast fyrir Tindastól og þurfa allir, leikmenn, þjálfari, stuðningsmenn og stjórn að leggjast á árarnar til að komast í gegnum brimskaflinn. Það er hægt, það vita allir. Áfram Tindastóll!
Sjá gang leiks HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.