Stólarnir kræktu í stig gegn KFG
Í gær mættust lið KFG og Tindastóls í 3. deild karla í knattspyrnu á OnePlus vellinum í Garðabæ en leikurinn átti að fara fram snemma á tímabilinu en var þá frestað vegna Covid-smita í Skagafirði. Tindastólsmenn mættu sprækir til leiks eftir góðan sigur á Vopnafirði og áttu skilið að fara með öll stigin með sér norður en eins og stundum áður gekk illa að landa stigunum þremur og Garðbæingar jöfnuðu leikinn skömmu fyrir leikslok. Lokatölur 2-2.
Lið Tindastóls var sterkari aðilinn í leiknum en það voru engu að síður heimamenn sem náðu forystunni á markamínútunni, 43., en þar var að verki Jóhann Ólafur Jóhannesson. Raul Sanjuan Jorda jafnaði leikinn mínútu síðar og allt jafnt í hálfleik. Stólarnir voru með yfirburði framan af síðari hálfleik og Raul kom sínum mönnum yfir á 53. mínútu með góðu marki. Þegar leið á leikinn náðu heimamenn upp pressu en lið Tindastóls var þó óheppið að fá ekki dæmda vítaspyrnu þegar Árni Ödda var klipptur niður í teig KFG. Það var síðan á 87. mínútu sem Kári Pétursson jafnaði leikinn eftir að Stólarnir töpuðu boltanum og heimamenn skutust upp völlinn.
Enn eitt jafnteflið því staðreynd og áfram heldur þessi leiðinlegi ávani Tindastólsliðsins að fá á sig mark á lokamínútum leikja. Stólarnir hafa nú fengið á sig mark eftir 85. mínútu í fjórum síðustu leikjum og hefur það kostað liðið sex stig. Þó svo að Tindastóll sé nú í áttunda sæti með 10 stig þá væru 16 stig og fimmta sætið ansi huggulegri staða að vera í. Það jákvæða er að liðið hefur verið að spila betur upp á síðkastið og í hádeginu nk. laugardag taka strákarnir á móti liði KFS úr Eyjum og það væri sætt að klára fyrri umferðina í 3. deildinni með sigri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.