Stólarnir í hörkukeppni á Tenerife

Meistaraflokkur Tindastóls í körfubolta tekur þátt í sterku æfingamóti sem haldið verður í bænum Tacoronte á Tenerife daganna 16. og 17. sept. nk. Auk Tindastóls taka þátt Palma Air Europa, Cáceres Heritage og Real Club Nautico de Tenerife. Á blaðamannafundi sem haldinn var sl. miðvikudag um mótið voru liðin kynnt og greinilega mikill spenningur fyrir mótinu hjá heimamönnum.

 

„Tindastóli var boðið á þetta mót vegna þeirra sterku tengsla sem félagið hefur myndað við heimamenn á Tenerife en eins og flestum er kunnugt um þá er núverandi þjálfari liðsins Jose María Costa frá Tenerife,“ segir Stefán Jónsson formaður körfuboltadeildar Tindastóls. Liðið mun  fljúga út þann 13. september og dvelur ytra í eina viku og æfir fram að móti. „Þetta er sterkt mót og mikil áskorun fyrir liðið að komast á þannig mót í undirbúningsferlinu fyrir komandi átök vetrarins,“segir Stefán. 

 

Á blaðamannafundinn kom m.a. borgarstjóri Tacoronte, yfirmaður íþróttamála og fulltrúar styrktaraðila sem lýstu yfir ánægju sinni með það að mótið skyldi haldið en eftir því sem kemur fram á vef Mutua Tinerfeña  tókst ekki að halda það á seinasta ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir