Stólarnir fóru auðveldlega í gegnum Álftnesinga

Leikið var karlaflokki í VÍS bikarnum í gær og þá mættust lið Tindastóls og Álftaness, með Króksarann Pálma Þórsson í sínum röðum, í Síkinu. Stólarnir tóku strax völdin og voru yfir, 57-29 í hléi. Leikar voru jafnari í síðari hálfleik og fór svo að heimamenn unnu 30 stiga sigur, 100-70.

Byrjunarlið Stólanna var alveg splunkunýtt en það skipuðu þeir Sigtryggur Arnar, Siggi Þorsteins, Taiwo Badmus, Thomas Kalmeba-Massamba og Javon Bess. Gestirnir gerðu fjögur fyrstu stigin í leiknum en þá skildu leiðir og Stólarnir gerðu næstu 15. Staðan var 30-12 að loknum fyrsta leikhluta og ljóst að gestirnir áttu ekki roð í heimamenn. Allir leikmenn fengu að spreyta sig að þessu sinni sem er alltaf ánægjulegt að sjá.

Taiwo Badmus var stigahæstur með 26 stig og Javon Bess gerði 20. Thomas hinn sænski var með 11 stoðsendingar en Siggi Þorsteins hirti níu fráköst og setti tíu stig á töfluna líkt og Sigtryggur Arnar.

Þá er gaman að geta þess að besti leikmaður Álftaness í leiknum, Friðrik Anton Jónsson sem gerði 22 stig, tók níu fráköst og átti fjóra stoðara, er Skagfirðingur. Móðir hans er Guðný Þóra Friðriksdóttir og er kappinn skírður í höfuðið á afa sínum, Frigga frá Höfða á Höfðastrond.

Á sunnudag hefjast átta liða úrslit VÍS bikarsins og þá verða menn að bretta upp ermar (sem engar eru reyndar) því þá kemur lið Keflavíkur í Síkið en þeir rótburstuðu Hött í kvöld fyrir austan. Það er að verða of langt síðan Stólarnir unnu Suðurnesjasveinana og það væri ágætt að velta þeim úr bikarkeppninni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir