Stólarnir æfa körfu á Hvammstanga í kvöld
Í kvöld mun Dominos-deildar lið Tindastóls í körfubolta heimsækja Hvammstanga og halda þar æfingu á nýja parketinu í íþróttahúsinu. Æfingin fer fram fyrir opnu húsi og eru allir áhugasamir á svæðinu hvattir til að mæta og verða vitni af því hvernig Maltbikarmeistararnir æfa.
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hvetur leikmenn í yngri flokkum Kormáks að fjölmenna og hitta strákana eftir æfinguna og spjalla við þá. Æfingin hefst kl 19.00.
Framundan er síðan stórleikur á Króknum í vikulokin en lið Tindastóls mætir þá KR og hefur leikurinn verið færður yfir á föstudagskvöldið 2. mars og hefst kl. 20:00. Stuðningsmenn Stólanna eru hvattir til að fjölmenna og hvetja sína menn í þessum mikilvæga leik í toppbaráttu deildarinnar.
Tindastólsmenn héldu sér á tánum núna í landsleikjahlénu með því að spila leik gegn liði Þórs Akureyri nú á laugardaginn. Stólarnir voru án Péturs, Arnars og Axels en Þórsarar hvíldu annan kanann sinn og Pálma Geir. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað framan af, Stólarnir yfirleitt skrefinu framar en þeir náðu síðan góðu forskoti í lokafjórðungnum og sigruðu með 21 stigs mun. Ungu drengirnir, Elvar Hjartar og Hlynur Einars, sýndu góð tilþrif og glöddu augað en annars var Hester stigahæstur Stólanna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.