Stólarnir á toppnum með 14 stig í koppnum...

Anton Örth, annar sænsku tvíburanna sem leika með Stólunum, er hér lengst til vinstri. Hann gerði fyrsta mark sitt fyrir Stólana í dag og kom sínum mönnum yfir í leiknum. MYND: ÓAB
Anton Örth, annar sænsku tvíburanna sem leika með Stólunum, er hér lengst til vinstri. Hann gerði fyrsta mark sitt fyrir Stólana í dag og kom sínum mönnum yfir í leiknum. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn tróðust suður í sollinn í dag og mættu SR-ingum á Þróttarvellinum í borgarblíðunni. Fyrir leik stóðu Stólar á toppi B-riðils 4. deildarinnar með ellefu stig en lið SR var um miðjan riðil með sjö stig. Eftir að hafa skotið gestunum skelk í bringu á upphafsmínútunum réttu Donni og félagar kúrsinn og kræktu í stigin þrjú sem í boði voru. Lokatölur reyndust 3-5 og Stólarnir nú með 14 stig og enn taplausir í riðlinum.

Ef eitthvað er að marka hálfkaraða leikskýrslu á vef KSÍ þá kom Jóhannes Kári Sólmundarson SR yfir á 13. mínútu og Róbert Orri Ragnarsson bætti um betur þremur mínútum síðar. Stólarnir vöknuðu þá við vondan draum og rifu sig í gang. Jónas Aron minnkaði muninn beint úr horni en síðan jafnaði Basi leikinn og áður en hálfleikurinn var úti hafði Anton Örth komið Stólunum í forystu. Basi bætti við fjórða markinu snemma í síðari hálfleik en SR-ingar minnkuðu muninn í 3-4. Það var hins vegar Spánverjinn ágæti, Basi, sem gerði síðasta mark leiksins og fullkomnaði þrennuna áður en yfir lauk.

Sáttur með að strákarnir skoruðu fimm góð mörk

Feykir hafði samband við Donna þjálfara og spurði hvort hann hefði verið ánægður með leik Tindastóls. „Byrjunin var ekkert sérstök varnarlega. Þeir skoruðu tvö mörk þar sem við vitum að við hefðum átt að gera betur,“ sagði Donni. „Sóknarlega byrjuðum við hins vegar af krafti og spiluðum okkar flotta bolta mjög vel. Leikurinn i heild sinni var frekar vel spilaður og við létum boltann ganga vel á milli manna og á milli svæða. Sköpuðum töluvert af færum fyrir utan mörkin en ég er samt sáttur með að strákarnir skoruðu fimm góð mörk.“

Var ekki óþarfi að láta SR skora þrjú mörk?„Varnarlega vorum við heilt yfir stabílir fyrir utan 3-4 skipti og það munum við laga.“

Hvernig finnst þér deildin vera að spilast?„Deildin er að spilast eins og við bjuggumst við. Við á toppnum og munum einbeita okkur að því að klára hvern leik eins vel og mögulegt er.“

Stólastúlkur mæta Fjölni í Grafarvogi

Lið Tindastóls í Lengjudeild kvenna verður sömuleiðis í borginni um helgina en á morgun, sunnudag, mæta þær liði Fjölnis í Grafarvogi og hefst leikurinn kl. 16:00. Donni segir að staðan fyrir leikinn við Fjölni sé nokkuð góð. „Stelpurnar eru i toppstandi og tilbúnar i mjög snúinn leik við lið sem er i leit að sínum fyrsta sigri. Þær spila á grasi sem eru alltaf viðbrigði (eins og hjá strakunum i dag) en ég veit að stelpurnar okkar munu gefa allt i verkefnið.

Stólastúlkur gerðu 2-2 jafntefli við lið Austfirðinga í síðustu umferð. Hvað fannst þér um leikinn? „Leikurinn við Fjarðabyggð var þokkalegur af okkar hálfu. Við fengum fleiri færi en þær en þær voru samt skeinuhættar í sínum skyndisóknum. Við vorum mjög svekkt með jafntefli úr því sem var á 80+ mínútu en stelpurnar eru ennþá í uppbyggingarfasa og eru algerlega á áætlun varðandi stigasöfnun þannig séð,“ segir Donni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir