Stólar og Samherjar deildu stigunum
Meistaraflokkur karla hjá liði Tindastóls skeiðaði á ný fram á fótboltavöllinn í gær þegar þeir tóku á móti liði Samherja úr Eyjafirði í Lengjubikarnum. Liðið tók þátt í Kjarnafæðismótinu í janúar og spilaði því fyrsta alvöruleikinn undir stjórn Dom Furness í gær. Talsverður vorbragur var á leiknum og spil af skornum skammti samkvæmt upplýsingum Feykis. Lokatölur 1-1.
Addi Ólafs kom Stólunum yfir strax á 9. mínútu en Magnús Aron jafnaði fyrir Samherja eftir slaka sendingu úr vörn Tindastóls til baka á markmann liðsins. Þar við sat þó svo að lið Tindastóls hafi fengið helling af tækifærum til að vinna leikinn.
Það má segja að hvorugt liðanna hafi sýnt sambatakta á gervigrasinu í gær. Lið Tindastóls tefldi fram svipuðu liði og í fyrrasumar og í raun eina breytingin sænski framherjinn Max Karl Linus Selden sem fylgdi þeim Örth bræðrum til landsins nú í febrúar. Lengjubikarinn býður ekki upp á marga leiki þetta vorið því aðeins þrjú lið eru í riðli Tindastóls. Auk Tindastóls og Samherja er lið Spyrnis frá Egilsstöðum einnig í riðlinum en það var stofnað 1968. Tindastóll hefur síðan leik í 4. deild 13. maí en tíu lið verða í 4. deildinni og gæti orðið spennandi keppni.
Þriðju deildar lið Kormáks Hvatar tekur ekki þátt í Lengjuvikarnum að þessu sinni en samkvæmt upplýsingum Feykis þá tóku Húnvetningar þá ákvörðun að fókusa á að safna liði og koma sterkir inn í mótið – sem máli skiptir. Væntanlega tekur lið Kormáks Hvatar nokkra góða æfingaleiki þegar leikmenn verða mættir til leiks á stífpússuðum takkaskóm. Húnvetningar hefja leik í 3. deildinni 6. maí en þetta er annað sumar liðsins í deildinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.