Stjarnan lagði Stólana eftir dramatískar lokasekúndur

Taiwo Badmus með tilþrif. Hann var bestur í liði Tindastóls í svekkjandi tapi kvölsins. MYND: HJALTI ÁRNA
Taiwo Badmus með tilþrif. Hann var bestur í liði Tindastóls í svekkjandi tapi kvölsins. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll fékk lið Stjörnunar í heimsókn í 16 liða úrslitum í VÍS bikarnum í kvöld. Jafnræði var með liðunum framan af leik en Stjarnan náði undirtökunum í þriðja leikhluta og virtist ætla að stinga Stólana af. Taiwo Badmus og Siggi Þorsteins héldu heimamönnum inni í leiknum og fjórði leikhluti var æsispennandi. Lið Tindastóls fékk færi á að klára leikinn með góðri lokasókn en hún var langt frá því að vera sannfærandi og ekki vildi boltinn í körfu Stjörnunnar sem nældi þar með í sigurinn, lokatölur 78-79.

Sem fyrr segir var jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta og þau skiptust á um að hafa forystuna. Hlynur Bærings og Gunnar Ólafs gerðu síðustu stig leikhlutans fyrir gestina og þeir voru yfir, 19-21. Stjörnumenn náðu tíu stiga forystu í upphafi annars leikhluta, 19-29, Baldur tók leikhlé í stöðunni 29-41 og í kjölfarið fylgdu tvær körfur frá Sigtryggi Arnari. Javon Bess setti niður þrist þegar tæp mínúta var til leikhlés og minnkaði muninn í sex stig en Hilmar Smári átti lokaorðið fyrir Stjörnuna. Staðan 38-46 í hálfleik.

Tindastólsmenn komu ekki til leiks í upphafi þriðja leikhluta og komust ekki á blað fyrr en þrjár mínútur voru liðnar. Þá var staðan orðin 38-53 og gestirnir komnir með 15 stiga forystu. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 42-58 en þá loks náðu Stólarnir að klóra sig inn í leikinn og minnkuðu muninn í átta stig fyrir lok þriðja leikhluta, staðan 55-63. Axel Kára minnkaði muninn í sex stig í upphafi fjórða leikhluta og í kjölfarið á því að Taiwo Badmus fékk dæmdan á sig ruðning tók hann yfir sóknarleik Tindastóls og gerði níu stig í röð.

Á þessum kafla kom Viðar inn með mikla orku og náði að drífa félaga sína með sér í að spila almennilega vörn. Stólarnir komust yfir, 66-65, en gestirnir svöruðu með sex stigum í röð og Viðar og Axel fóru út af fyrir Sigga og Bess. Aftur söxuðu Stólarnir á forskot Stjörnunnar og nú var leikurinn skyndilega orðinn æsispennandi. Gestirnir höfðu þó jafnan nauma forystu en þegar tæpar 40 sekúndur voru eftir fékk Bess tvö víti og gat jafnað leikinn. Hann setti seinna vítið niður og staðan 78-79 þegar Stjarnan fór í sókn og Turner þriðji reyndi 3ja stiga skot sem geigaði og Stólarnir tóku leikhlé þegar 17 sekúndur voru eftir, fengu sæmilegt skotfæri innan teigs, boltinn skoppaði af hringnum og aftur fengu Stólarnir boltann en niður fór boltinn ekki í annarri tilraun. Stjörnusigur.

Hvað er með þristana?

Það voru of fáir leikmenn sem skiluðu alvöru sóknarframlagi í kvöld og í raun makalaust að það var möguleiki á sigri í lokasókn Tindastóls. Badmus og Siggi drógu vagninn en áfram heldur eyðimerkurganga liðsins utan 3ja stiga línunnar. Í kvöld settu Stólarnir fjóra þrista í 26 skotum, sum skotin sem klikkuðu voru úr galopnum færum, en nýting gestanna var heldur skárri, tíu niður í 40 skotum! Stólarnir tóku fleiri fráköst en þar var þó mjótt á munum.

Badmus var öflugastur í liði Tindastóls, gerði 23 stig og tók átta fráköst en tapaði boltanum fimm sinnum. Siggi Þorsteins náði aftur vopnum sínum eftir erfiðan Grindavíkurleik, tók tíu fráköst og gerði 18 stig og Bess var með 15 stig og tíu fráköst en skotnýtingin var ekki góð.Bakverðir liðsins voru mistækir og þurfa að gera betur en í kvöld ef liðið ætlar að vinna leiki á ný. Helgi Rafn var ónotaður varamaður líkt og í síðasta leik en hann glímir við meiðsli. Í liði gestanna var Turner III með 20 stig og tíu fráköst, Hilmar Hennings með 19 stig og David Gabrovsek 17 stig.

Stólarnir eru því úr leik í VÍS bikarnum þennan veturinn. Næsti leikur Tindastóls í Subway-deildinni er í Njarðvík nk. föstudagskvöld. Áfram Tindastóll!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir