Sterkur sigur á Sandgerðingum
Tindastóll fékk í kvöld lið Reynis Sandgerði í heimsókn á Sauðárkróksvöll í 3. deildinni. Fyrir leikinn voru Stólarnir í toppsæti deildarinnar en Reynir í fjórða sæti og því eitt af þeim liðum sem vill nálgast toppliðin tvö. Sú varð ekki raunin því Tindastólsmenn höfðu betur, 2-1, og vonir Sandgerðinga um sæti í 2. deild nánast úr sögunni. Stólarnir stefna aftur á móti hraðbyri upp um deild.
Aðstæður voru ágætar á Króknum í kvöld, nýbúið að rigna, norðangola en sólskin. Það voru Reynismenn sem gerðu fyrsta markið strax á 8. mínútu en þá fylgdi Róbert Samaniego eftir þrumuskoti, sem Brentton Muhammad hafði náð að verja í marki Tindastóls, og skilaði boltanum í markið. Þar með hófu heimamenn að pressa að marki gestanna og á 14. mínútu urðu gestirnir fyrir áfalli þegar fyrirliða þeirra, Birki Sigurðssyni, var vísað af velli með beint rautt. Það sem eftir lifði af fyrri hálfleik fengu Stólarnir nokkur frábær færi til að jafna leikinn en voru fádæma nákvæmir í að hitta markmann Reynis sem var reyndar í ágætu stuði. Hann réð þó ekki við hornspyrnu frá Konna á 45. mínútu og Bjarki Már skallaði boltann í netið af miklu harðfylgi á fjærstöng. Staðan 1-1 í hálfleik.
Það var meira af því sama í síðari hálfleik og á 60. mínútu fengu Stólarnir víti þegar varnarmaður Reynis varði ágætt skot Vilhjálms Kaldal með hendi. Kenneth Hogg skilaði vítinu í hægra hornið af öryggi og Stólarnir komnir yfir. Stuttu síðar kom Benni inn í lið Stólanna og tvisvar átti hann að fá dæmda vítaspyrnu en virtist aðeins fá skammir frá slökum dómara leiksins sem var ansi spjaldaglaður. Reynismenn reyndu að jafna leikinn en fengu í raun engin færi þó þeir hafi í tvígang átt hættulegar sendingar fyrir mark Stólanna. Leikmönnum Tindastóls var fyrirmunað að bæta við marki þrátt fyrir marga ágæta sénsa en tvö mörk dugðu að þessu sinni og lokatölur því 2-1.
Bestur í liði Tindastóls í kvöld var Stephen Walmsley inni á miðjunni en hann stoppaði ófáar sóknir gestanna í fæðingu og hóf sóknir Tindastólsmanna. Að venju var Bjarki Már traustur og hann skoraði hið mikilvæga jöfnunarmark. Villi og Benni voru í miklum ham á hægri kantinum og Kenneth Hogg var viljugur.
Með sigrinum færast Tindastólsmenn enn nær sæti í 2. deild en liðið hefur nú unnið ellefu leiki í röð, sem er félagsmet, og hefur nú 15 stiga forskot á liðin í 3.–4. sæti. Annað þeirra er reyndar lið Einherja sem hefur spilað tveimur leikjum færra en Stólarnir en staðan engu að síður gríðargóð og ekkert nema epískt klúður sem kæmi í veg fyrir að lið Tindastóls fari upp um deild.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.