Sterk þrjú stig í pott Húnvetninga

Hluti liðsmanna Kormáks Hvatar kampakátir að leik loknum og skarta þarna splunkunýjum búningum. MYND AF FB
Hluti liðsmanna Kormáks Hvatar kampakátir að leik loknum og skarta þarna splunkunýjum búningum. MYND AF FB

Leikmenn Kormáks Hvatar bættu þremur stigum í pottinn þegar þeir mættu Úlfunum á Framvellinum í Reykjavík í gær. Bæði lið höfðu unnið einn leik og tapað öðrum í ansi jöfnum D-riðli 4. deildar og því mikilvægt fyrir bæði lið að sækja þrjú stig og koma sér betur fyrir á stigatöflunni. Húnvetningar skoruðu snemma leiks og þar við sat, lokatölur 0-1.

Það var hinn eldsnöggi og áræðni Akil Rondel Dexter De Freitas sem gerði eina mark leiksins á 10. mínútu. Heimamenn urðu fyrir áfalli snemma í síðari hálfleik þegar fyrirliði þeirra, Arnór Siggeirsson, fékk að líta annað gula spjald sitt í leiknum og varð því að skottast af velli og skilja félaga sína eftir einum færri. Lið Kormáks Hvatar hélt síðan sjó það sem eftir lifði leiks og sætur seiglusigur í höfn.

Að þremur umferðum loknum eru lið Hvíta riddarans og Léttis efst með sjö stig en síðan koma Vængir Júpiters og Kormákur Hvöt með sex stig. Átta lið eru í D-riðlinum. Næsti leikur er nk. laugardag en þá mæta Húnvetningar á gervigrasvöllinn í Fagralundi í Kópavogi þar sem Vatnaliljurnar bíða eftir þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir