Stelpurnar með góðan sigur á liði Stjörnunnar í Síkinu
Lið Tindastóls og Stjörnunnar mættust í 1. deild kvenna í Síkinu í dag. Garðbæingar fóru illa með Stólastúlkur á sínum heimavelli fyrr í vetur en ófaranna var hefnt því lið Tindastóls átti ágætan leik og sigraði 83-66 eftir að hafa haft yfirhöndina nær allan leikinn.
Góð barátta og fínn varnarleikur skópu sigurinn og þá náðu stelpurnar sínu mesta stigaskori í vetur í þessum leik en oft hefur liðinu gengið illa að finna körfu andstæðinganna. Karen Lind gerði fyrstu sjö stig Stólanna en jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar. Gestirnir komust yfir í eina skiptið í leiknum í stöðunni 8-10 um miðjan fyrsta leikhluta en sjö stig frá Evu Wium komu heimastúlkum yfir, 22-13, fyrir lok fyrsta leikhluta. Munurinn var yfirlett þetta sex til tólf stig í öðrum leikhluta en lið Stjörnunnar náði að klóra í bakkann fyrir hlé en þá stóð 36-31.
Marín Lind, sem átti flottan leik í dag, dró vagninn í upphafi þriðja leikhluta, gerði þá ellefu fyrstu stig Stólastúlkna sem náðu tíu stiga forystu á ný. Þær bættu enn um betur áður en leikhlutinn var úti en þá var staðan 55-41. Lið Stjörnunnar minnkaði muninn í tíu stig á ný en tveir þristar í röð frá Berglindi Skapta breyttu stöðunni í 61-45 og þá var nú mesti móðurinn úr liði gestanna um leið og mesti varnarmóðurinn þvarr hjá báðum liðum en fjórði leikhlutinn endaði 28-25 fyrir Stólastúlkur.
Eva Wium og Marín Lind voru atkvæðamestar í liði heimastúlkna. Eva var með 19 stig og tíu fráköst en Marín 26 stig og sex fráköst. Karen Lind skilaði 16 stigum og Inga Sólveig hirti 13 fráköst. Bergdís Lilja og Alexandra Eva voru bestar í liði Stjörnunnar. Lið Stólastúlkna hefur tekið framförum í vetur og er að spila töluvert skipulagðari bolta og boltinn gengur betur.
Samkvæmt vefsíðu KKÍ á lið Tindastóls eftir að spila þrjá leiki (!?) en eini heimaleikurinn sem eftir er verður spilaður 4. maí en þá kemur lið Ármanns í heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.