Stefnir í flotta skíðahelgi í Tindastólnum
Framundan er þriðja opnunarhelgin á skíðasvæðinu í Tindastólnum. „Það hefur verið frábær mæting síðustu tvær helgar,“ sagði Sigurður Hauksson, forstöðumaður svæðisins, þegar Feykir hafði samband. „Við tókum á móti fyrsta gönguskíðahópnum 13. nóvember og opnuðum neðri lyftuna viku síðar. Mikill snjór er á svæðinu og hafa æfingahópar nýtt sér opnunina og komið hverja helgi.“
Sigurður segir að um 600 manns hafi heimsótt svæðið í nóvember og að það stefni í flotta helgi núna. „Við erum að starta töfrateppinu nú á morgun og það er 3 km gönguskíðabraut á svæðinu. Einungis neðri lyftan er opin eins og er en við höfum ekki náð að festa snjo nógu vel á efra svæðinu til þess að geta opnað topplyftuna,“ segir hann.
Skiðavinir eru beðnir um að fylgja sóttvörnum á svæðinu, gæta þarf að eins metra nándarreglu og að sjálfsögðu er grímuskylda þar sem ekki er hægt að að tryggja hana. Grímuskylda er í skíðaskála.
Í lokin minnir Siggi á að forsala á vetrarkortum stendur til 5. desember en 20% afsláttur er á kortunum meðan forsala er í gangi. Það er því ekkert annað í kortunum en að stefna á Stólinn – enda veðurspáin hagstæð og hvar annars staðar kemstu á skíði?
- - - - -
Fylgist með á Facebook-síðu svæðisins >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.