Startkaplar óskast á stuðlausa Stóla!
Ágætur sigur gegn Hetti sl. mánudag reyndist gefa falska von um að Stólarnir væru búnir að hysja upp um sig eftir dapurt gengi í fyrstu umferðum Dominos-deildarinnar. Í gær fóru strákarnir okkar norður á Akureyri og því miður voru það heimamenn sem voru baráttuglaðari, betri og meiri töffarar. Eftir ágætan fyrri hálfleik fengu Stólarnir 36 stig á sig í þriðja leikhluta og varnarleikur liðsins efni í sorgarsöngva – eða gamanmál. Leikurinn var engu að síður spennandi allt til loka en niðurstaðan var 103-95 tap gegn Þór Akureyri.
Þetta var sjötti leikur Tindastóls og fjórða tapið og í heildina hefur liðið verið ósannfærandi – eiginlega sannfærandi ósannfærandi – í leik sínum. Liðið er skipað góðum leikmönnum, það gengur ágætlega að skora en liðið er ekki að ná saman eins og staðan er í dag. Næsti leikur er í Þorlákshöfn þar sem liðsstemningin er í hávegum eins og tvær rústanir á ÍR og KR í síðustu tveimur leikjum sanna. Það má fullyrða að stuðningsmenn Stólanna horfi ekki björtum augum til sunnudagsins.
Stólarnir byrjuðu þó leikinn í gær vel og komust í 5-13 eftir fjórar mínútur og leiddu síðan 20-29 að loknum fyrsta leikhluta eftir að Helgi fyrirliði Viggós skutlaði niður þristi í blálokin. Heimamenn söxuðu á forskotið í öðrum leikhluta og Srdan Stojanovic jafnaði leikinn 35-35 þegar sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Króksararnir náðu aftur frumkvæðinu og leiddu í hálfleik, 41-48.
Liðin skoruðu grimmt í þriðja leikhluta en vandamálið fyrir Stólana var að Þórsarar skoruðu bara talsvert meira – gerðu jú 36 stig í leikhlutanum gegn 22 Tindastóls. Það tók Akureyringana fjórar mínútur að komast yfir og þeir voru komnir með níu stiga forystu þegar tvær og hálf mínúta var eftir af þriðja. Stólarnir náðu ágætum kafla eftir að Tomsick var hvíldur en þristur frá Srdan sá til þess að Þórsarar voru 77-70 yfir fyrir lokaátökin.
Lið Tindastóls kom ákveðið til leiks í fjórða leikhluta og minnkaði muninn í eitt stig á fyrstu mínútunni með góðum körfum frá Glover, Tomsick og Udras. Þórsarar stigu upp og körfur frá Ragga Ágústs komu muninum í sex stig og Ivan Alcolado bætti um betur, staðan 88-79 þegar sex mínútur voru eftir. Aftur kom ágætur kafli hjá gestunum og Glover og Tomsick gerðu næstu átta stig og munurinn eitt stig. Þá tóku Ivan og Srdan sig til og gerðu 14 síðustu stig Þórs og við því áttu Tindastólsmenn fá svör.
Svekkjandi tap Tindastóls staðreynd en fyrsti sigur í hús hjá Þórsurum. Eitthvað þarf að breytast hjá liði Stólanna ætli þeir sér ekki að lenda í veseni með að koma sér í úrslitakeppni eða eitthvað þaðan af verra.
Shawn Glover var með 32 stig í leiknum og tíu fráköst, jafn mörg og Pétur sem gerði tíu stig. Tomsick gerði 30 stig í leiknum, Udras tíu, Helgi Rafn fimm en aðrir minna. Liðin áttu jafn mörg skot í leiknum en heimamenn voru með 49% nýtingu en Stólarnir 41%. Lið Tindastóls tók ellefu fleiri fráköst en Þórsarar en tapaði boltanum helmingi oftar en heimamenn eða 14 sinnum. Stigahæsti Tindastólsmaðurinn var í liði Þórs en Ragnar Ágústsson gerði 16 stig í leiknum og var leiðinlega góður (!). Srdan gerði 26 stig fyrir Þór og þeir Dedrick Basile og Ivan Alcolado 23 hvor.
Þrátt fyrir áskorun um uppskrift af malakoff í þessari umfjöllun þá verður ekki orðið við þeirri beiðni að sinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.