Spennandi námskeið á Króknum milli jóla og nýárs fyrir ungt knattspyrnufólk
Knattspyrnuakademía Norðurlands verður með námskeið dagana 27. og 28. desember á Sauðarkróksvelli og er námskeiðið ætlað krökkum allt frá 7. flokki og upp í 3. flokk karla og kvenna. Systurnar og landsliðskonurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur verða með fyrirlestra á námskeiðinu. „Það er frábært að fá jafn reynda fyrirlesara og þær systur. Nú þegar hafa rúmlega 30 krakkar skráð sig. Foreldrar barna sem koma á námskeiðið geta setið þessa fyrirlestra sem er frábært því þarna er farið yfir allt sem skiptir máli. Einar Örn,Margrég Lára og Elísa eru öll mikið íþróttafólk og fagmenn í því sem þau eru að gera,“ segir Tóti yfirþjálfari yngri flokkaTindastóls.
Námskeiðin verða mánudaginn 27. des. frá kl. 13:30–15:30 og síðan daginn eftir frá kl. 12:00–14:30. Æft verður úti ef veður leyfir en annars verða æfingar færðar inn í íþróttahúsið.
Að sögn Þórólfs Sveinssonar (Tóta), forsprakka akademíunnar og yfirþjálfara yngri flokka hjá knattspyrnudeild Tindastóls, þá hefur Knattspyrnuakademía Norðurlands verið starfandi síðan 2012 og notið mikilla vinsælda. „Við munum fá gestaþjálfara sem verða með okkur auk leikmanna úr mfl. karla og kvenna. Við hvetjum börn til að skrá sig á þetta námskeið héðan af svæðinu, jafnt stráka sem stelpur,“ segir Tóti.
Frábærir fyrirlesarar og fyrirmyndir
Margrét Lára Viðarsdóttir kemur og verður með fyrirlestur kl. 12 mánudaginn 27. desember í Árskóla ásamt eiginmanni sínum Einari Erni Guðmundssyni sjúkraþjálfara.
Í sínum fyrirlestri fer Einar Örn sjúkraþjálfari yfir helstu áhættuþætti ofþjálfunar og álagsmeiðsla. Hann fer yfir mikilvægi samskipta milli þjálfara, leikmanna og foreldra til þess að draga úr álagi og vera vakandi fyrir viðvörunarbjöllum vegna mögulegs ofálags. Einnig fer Einar Örn yfir skaðsemi orkudrykkja og mikilvægi hvíldar, endurheimtar og sjálfsmeðferðar fyrir íþróttafólk.
Margrét Lára er sálfræðingur og íþróttafræðingur. Hún fer yfir mikilvægi andlegs styrks til þess að takast á við streitu, erfiðleika eða mótlæti í íþróttum. Margrét Lára fer yfir nokkra þætti sem að íþróttamennirnir sjálfir geta hugað að til þess að auka líkur á árangri og aukið ánægju þeirra á æfingum eða í leikjum. Einnig fer Margrét Lára yfir mikilvægi svefnsins sem er okkar helsti orkugjafi.
Elísa Viðarsdóttir verður með fyrirlestur þriðjudaginn 28. desember kl. 15:00 um mikilvægi næringar, hvíldar og margt fleira. Ekki er nóg að heildarneysla sé í samræmi við orkuþörf heldur þarf einnig að huga að samsetningu fæðunnar. Orkuefnin, prótein, fita og kolvetni eru öll nauðsynleg líkamanum en í mismiklu magni á mismunandi tíma. Þetta allt mun Elísa Viðarsdóttir matvæla-og næringarfræðingur fara yfir með ykkur.
Þær systur eru með gríðarlega reynslu sem afreksíþróttamenn hafa báðar leikið í mörg ár fyrir A landslið Íslands í Knattspyrnu. Foreldrar barna sem skrá sig á námskeiðið geta setið fyrirlestrana og munum við passa að virða allar reglum með fjöldatakmarkanir sem gilda hverju sinni.
Skráning er á netfangið thorolfur@akmennt.is
Í skráningu þarf að koma fram nafn barns, félag og flokkur. Verð fyrir eitt barn er kr. 9.000, fyrir tvö börn kr. 15.000 kr, þrjú börn kr. 15.000 (frítt fyrir þriðja barn). Skráningar og greiðslufrestur er til 23. desember. Aðeins komast á þetta námskeið 60 krakkar (skipt er í tvo hópa, 30 börn í hóp) svo við getum passað að fara ekki yfir 50 mann fjöldatakmarkanir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.