Söguleg endurkoma Jóhanns Björns á hlaupabrautina

Það er óhætt að segja að Jóhann Björn Sigurbjörnsson, frjálsíþróttakappi, hafi heillað alla í Laugardalshöllinni um helgina með þátttöku sinni í 60 metra spretthlaupi. Mynd af FB.
Það er óhætt að segja að Jóhann Björn Sigurbjörnsson, frjálsíþróttakappi, hafi heillað alla í Laugardalshöllinni um helgina með þátttöku sinni í 60 metra spretthlaupi. Mynd af FB.

„Geggjað að mæta aftur á brautina, upp upp og áfram!“ skrifar Jóhann Björn Sigurbjörnsson, frjálsíþróttakappi, á Facebooksíðu sína eftir frægðarför í Laugardalshöll um síðustu helgi. Þar fór fram Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum og allt fremsta keppnisfólk landsins meðal þátttakenda.

Jóhann Björn var mættur á keppnisbrautina á ný eftir tveggja ára fjarveru vegna veikinda en hann greindist með Hodgkins eitlakrabbamein í upphafi síðasta árs og lauk lyfjameðferð fyrir fimm mánuðum síðan. Jóhann Björn gerði sér lítið fyrir og náði 4. sætinu í riðlakeppni 60 metra hlaups karla og þar með sæti í úrslitum en hann ákvað að hlaupa ekki úrslitin. Hljóp hann á 7,07 sekúndum en hans besti árangur er 6,93 sekúndur sem hann setti á Stórmóti ÍR fyrir tveimur árum. 

Félagar hans í UMSS voru honum næstir í hlaupinu, Sveinbjörn Óli Svavarsson í 3. sætinu og Ísak Óli Traustason í því 5. en Ísak jók hraðann heldur í úrslitum og nældi í silfurverðlaun með persónulegu meti, hljóp á 6,96 sekúndum. Sveinbjörn Óli tryggði sér 4. sætið á 7,10 sekúndum en hann hljóp milliriðilinn á 7,05 sekúndum, sem hefði fleytt honum í 3. sætið. Frábær árangur engu að síður. Sveinbjörn Óli gerði gott betur því hann endaði einnig í 4. sæti í 200 metra hlaupi á persónulegu meti, 22,86 sekúndum.

Ísak Óli var heldur ekki við eina brautina felldur því hann kom sá og sigraði í 60 metra grind á 8,43 sek. sem og í stangarstökki þar sem hann sveif yfir 4,42 og bætti sinn besta árangur. Í langstökki varð hann í öðru sæti með stökk upp á 6,83 metra og í kúluvarpi endaði hann í 6. sæti með 14,07 metra kast.

Fleiri frá UMSS létu til sín taka á mótinu og þar á meðal Þorkell Stefánsson sem varð 6. í 400 metra hlaupi á 53,05 sek. og 60 metrana hljóp hann á 7,50 sekúndum og varð 18. af 32 keppendum. Þá varpaði Andrea Maya Chirikadzi kúlu 10,21 metra sem gaf henni 7. sætið.

Öll úrslit mótsins er hægt að nálgast HÉR

Tengdar fréttir:
Jóhann Björn Sigurbjörnsson frjálsíþróttakappi - Glímir við erfið veikindi
Jóhann Björn og Ísak Óli í hörkukeppni á Smáþjóðaleikunum
Jóhann Björn setti nýtt Íslandsmet

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir