Skellur í Kaplakrika

Laufey Harpa í baráttunni í gær. MYND AF FÓTBOLTI.NET
Laufey Harpa í baráttunni í gær. MYND AF FÓTBOLTI.NET

Lið Tindastóls mætti Ferskum Hafnfirðingum í gærkvöldi í tíundu umferð Bestu deildar kvenna. Leikurinn reyndist gestunum erfiður því lið FH náði snemma tveggja marka forystu sem getur reynst þrautin þyngri að vinna upp. Stólastúlkur minnkuðu muninn í síðari hálfleik en heimastúlkur voru sprækar á lokakaflanum og bættu við tveimur mörkum. Lokatölur 4-1.

Lið FH komst yfir strax á níundu mínútu með góðu marki Hildigunnar Benediktsdóttur og aðeins þremur mínútum síðar bætti Ída Hermannsdóttir við öðru marki sem kom í kjölfarið á misheppnaðri markspyrnu hjá Monicu markverði. Í spjalli við Fótbolta.net sagði Donni þjálfari að hann hefði látið lið sitt spila rangt leikskipulag og eftir að hann breytti um kerfi jafnaðist leikurinn. Jordyn Rhodes hleypti spennu í leikinn á 68. mínútu þegar hún gerði ágætt mark og í kjölfarið náði lið Tindastóls betri tökum á leiknum. Á 84. mínútu vann FH liðið boltann framarlega á vellinum, spiluðu boltanum vel á milli sín og það endaði með því að Elísa Sigurjónsdóttir fékk boltann við vítateigslínuna, fékk of drjúgan tíma til að stilla miðið og sendi boltann í bláhornið hjá Monicu. Þar með gerði hún út um vonir Tindastóls og ekki bætti úr skák þegar Helena Hálfdánardóttir skófalði boltanum í mark Tindastóls á 88. mínútu eftir smá slugs inni á teig Stólastúlkna.

Þar með féll lið Tindatóls úr sjötta sætinu í það sjöunda því nú er kviknað á fyrrum botnliði Þróttar sem hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum og er nú sæti ofar en Tindastóll á betri markatölu. Nú á þriðjudaginn eiga stelpurnar síðan heimaleik en þá kemur topplið Breiðabliks í heimsókn á Krókinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir