Skallar og Blikar fá lið Tindastóls í heimsókn
Dregið var í 32-liða og 16-liða úrslit í VÍS bikarkeppni KKÍ í dag í húsakynnum VÍS í 108 Reykjavík og voru bæði karla- og kvennalið Tindastóls að sjálfsögðu í pottinum góða. Ekki bauð fyrrnefndur pottur Stólum upp á heimaleiki því stelpurnar mæta liði Breiðabliks í Kópavogi en strákarnir fara í Fjósið í Borgarnesi þar sem gulir og glaðir Skallagrímsmenn bíða spenntir.
32-liða úrslitin fara fram dagana 16.-18. október og 16-liða úrslitin 30. október-1. nóvember. Ljóst er að nái Stólarnir að hrista Skallana af sér í 32 liða úrslitum þá fá strákarnir heimaleik gegn Stjörnunni í 16 liða úrslitum. Það gefst þá tækifæri að hefna fyrir tapið í VÍS bikarnum nú í september þegar Garðbæingar lögðu Stóla í parket í undanúrslitum VÍS bikarsins í hörkuleik.
Það styttist óðum í að ónefnd deildarkeppni KKÍ hefjist en strákarnir mæta Valsmönnum í fyrsta leik föstudaginn 8. október og hefst leikurinn kl. 20:15. Illa hefur gengið gegn Valsmönnum að undanförnu og kominn tími til að laga það.
Strákarnir spiluðu í kvöld annan æfingaleik sinn í vikunni við Þór Akureyri. Stólarnir sigruðu 73-92 á Akureyri í byrjun vikunnar en töpuðu síðan í kvöld í Síkinu þar sem Tindastólsmenn voru daprir nema rétt í þriðja leikhluta. Lokatölur voru 75-88. Það eru nokkrir dagar til stefnu til að skerpa hnífana í skúffu þjálfarans og vonandi dugar það til að menn mæti beittir til leiks gegn Val.
Stelpurnar hefja leik í 1. deildinni nú á laugardag en þær sækja sameinað lið Hamars og Þórs heim í Hveragerði. Þær léku um liðna helgi æfingaleik við lið Snæfells í Stykkishólmi og höfðu betur, 57-64.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.