Skákþing Norðlendinga á Kaffi Krók
Skákþing Norðlendinga verður haldið á Kaffi Krók á Sauðárkróki 12. til 14. nóvember og hefst taflmennskan kl. 19.00, föstudagskvöldið 12. og verða þá tefldar fjórar umferðir atskáka með 25 mín. umhugsunartíma.
Á laugardag verða tefldar tvær kappskákir 90 mín. + 30 sek. á leik og er sú fyrri kl. 10.00 og sú seinni kl. 16.00. Þriðja kappskákin er svo kl. 10.00 á sunnudag og að henni lokinni Hraðskákþing Norðlendinga, sem líklega verður um kl. 14.00, eftir því sem kemur fram á heimasíðu Skákfélags Sauðárkróks. Þátttökugjald er kr. 2000 á skákþingið en ekkert í hraðskákmótið. Fyrstu verðlaun verða kr. 50.000, önnur 35.000, þriðju 20.000, fjórðu 15.000 og aukaverðlaun til efsta manns undir 1800 stigum, 10.000. Peningaverðlaun skiptast milli þeirra sem fá jafn marga vinninga. Titilinn Skákmeistari Norðlendinga getur aðeins hlotið sá sem á lögheimili á Norðurlandi og ræður þá stigaútreikningur verði menn jafnir að vinningum. Hægt er að tilkynna þátttöku á Skák.is eða hjá jhaym@simnet.is og í 8653827.
Að sögn Jóns Arnljótssonar, formanns TS, tók félagið þátt í Íslandsmóti Skákfélaga fyrir skömmu og gekk vel. Eftir fyrri hlutann situr það í efsta sæti fjórðu deildar en seinni hlutinn fer fram í mars. Jón segir að liðið hafi að miklu leyti verið skipað brottfluttum að þessu sinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.