Skákþing Norðlendinga 2021
Tvísýnt var hvort Skákþingið gæti farið fram sökum landsfarsóttar sem herjar á landsmenn alla og setti þetta mjög mark sitt á þátttökuna en undirbúningur að mótinu var í höndum Skákfélags Sauðárkróks og var þar í forystu Jón Arnljótsson á Ytri-Mælifellsá. Löggiltur skákstjóri úr Reykjavík var Edda Birgisdóttir, Eiríkssonar Kristinssonar, þetta er skagfirskur leggur en Eiríkur var bróðir Sveins Kristinssonar er var þekktur skáksnillingur á sinni tíð.
Mótið hófst á Kaffi Krók föstudaginn 12. nóvember klukkan 19 þar sem hver keppandi tefldi fjórar skákir með 25 mínútna umhugsunartíma per mann. Daginn eftir tefldar tvær langar skákir og á sunnudagsmorgni lokaumferðin. Tómas Björnsson, gestaþátttakandi ú Reykjavík, varð efstur með 5 ½ vinning með 26,5 TB stig jafn honum að vinningum varð Þórleifur Karlsson með 23,5 TB stig og jafnframt Norðurlandsmeistari en hann er heimamaður á Króknum. Næstur honum var Andri Freyr Björgvinsson, Akureyri, með 5 vinninga. Jón Arnljótsson, Ytri-Mælifellsá, með 4 vinninga. Sömuleiðis Unnar Ingvar Ingvarsson, Reykjavík, og Gunnar Rúnarsson, Reykjavík. Birgir Jónsson, Sauðárkróki, hlaut 3 vinninga. Jón Magnússon, Akureyri 2 vinninga. Sindri Snær Pálsson, Hólum, og Arnar Smári Signýjarson, Akureyri, ráku lestina með 1 vinning hvor. Þátttakendur tíu í mótinu.
Á sunnudeginum eftir hádeginum fór fram hraðskákmót þar sem Tómas Björnsson úr Reykjavík var efstur með 6 vinninga, en Þorleifur Karlsson náði 5 ½ vinningi og tapaði engri skák og varð hraðskákmeistari Norðlendinga. Þátttakendur voru átta. Verðlaun á mótinu voru vegleg.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá Skákþingi Norðurlands 2021:
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.