Skagfirska sveiflan ruddi brautina
Það vakti athygli á dögunum þegar það fréttist að íslensk hljómsveit hefði tekið sig til og ákveðið að styrkja Aftureldingu í Mosfellsbæ með því að setja nafnið sitt, Kaleo, framan á búninga klúbbsins. Einhverjir töldu að um tímamótasamning væri að ræða. Skömmu síðar fréttist svo að Ed Sheeran hefði gert svipaðan díl við sitt heimafélag, Ipswich Town, en kannski fyrir fleiri krónur. Þetta þóttu auðvitað gömul tíðindi í Skagafirði.
„Þið sem eruð að missa ykkur yfir stuðningi Kaleo við Aftureldingu og hvað það sé geggjað að hljómsveit sé aðalstyrktaraðili félagsins, róa sig aðeins,“ sagði Kiddi Balda í færslu á Facebook á dögunum en hann trommaði í Hljómsveit Geirmundar um og upp úr 1990. „Þetta var gert fyrir löngu síðan í Skagafirði og það big time, það var keyptur leikmaður úr NBA þegar þessi stórhljómsveit frá Sauðárkróki ruddi brautina fyrir poppara landsins í þessum bransa,“ segir Kiddi brattur en vísar þarna í að Pétur Guðmundsson kom heim á klakann og spilaði með liði Tindastóls veturinn 1991-1992. Framan á búningunum þann vetur stóð: Hljómsveit Geirmundar – Skagfirska sveiflan.
Kalli Jóns, sem starfar hjá Búvís á Akureyri en er fyrrum leikmaður og þjálfari Tindastóls, tekur undir með Kidda. „Nákvæmlega, þarna urðu trendin til. En þessir búningar voru ekki þeir liprustu man ég. Það var planið að Erling Pé myndi panta nýjustu gerð búninga úr netaefni og þetta yrði eins og í NBA. Hann sagði að það væri ekkert lið á Íslandi í svona búningum. Þegar búningarnir komu loksins voru þeir ekki úr netaefni, frekar einhverju þykku bómullarlíku efni og voru óþjálir eftir því og heitir. Þegar Erling ver rukkaðu um þetta stóð ekki á svarinu: „Þeir framleiða ekki svona netabúninga fyrir Ísland, það er of kalt hérna!“
Reyndar er þetta ekki óþekkt í heiminum og talsvert um það í enska boltanum að hljómsveitir hafi sett nafnið sitt á búninga heimaklúbbsins. Fyrsta dæmið sem Feykir fann um þetta í Bretlandi er frá árinu 1993, rétt á eftir Hljómsveit Geirmundar, en þá styrktu skosku poppararnir í Wet Wet Wet lið Clydebank. Super Furry Animals fengu nafn sitt á búninga Cardiff City árið 1999 og Fatboy Slim var á búningum Brighton and Hove Albion sama ár.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.