Skagfirðingamótið haldið í frábæru golfveðri í Borgarnesi

Hluti af þátttakendum á Skagfirðingamótinu 10. ágúst sl. Mynd tekin af Facebook-síðu Skagfirðingamótsins.
Hluti af þátttakendum á Skagfirðingamótinu 10. ágúst sl. Mynd tekin af Facebook-síðu Skagfirðingamótsins.
Laugardaginn 10. ágúst var glatt á hjalla á Hamri í Borgarnesi en þá fór fram 26. Skagfirðingamótið í frábæru golfveðri, logn og smá væta. Alls gátu 96 einstaklingar tekið þátt og var kominn biðlisti þegar styttist í mót en enginn forfallaðist og komust því færri að en vildu þetta árið, þar af voru 57 karlmenn og 39 kvenmenn.
 
Keppnin var hörð og jöfn hjá körlunum og voru þrír með 39 punkta en samanlagður árangur á síðustu þrem brautum raðaði þeim niður í sæti og var það Ingvar Ormarsson sem vann fyrsta sætið, Garðar Jóhanns, tengdasonur Ragga marteins, og Arnar Stefánsson, ættaður úr Blönduhlíðinni, sá þriðji. Í kvennaflokki var það Valgerður Friðriksdóttir sem vann kvennaflokkinn og það með miklum yfirburðum, alls 44 punkta, í öðru sæti, með 39 punkta, var Ragnheiður Matthíasdóttir og Anna Beta Sæmundar var þriðja en hún var einnig með 39 punkta. Valgerður Friðriks og Sigurfinnur Sigurjónsson unnu parakeppnina með 79 punktum en sá sem átti besta skor dagsins var klúbbmeistari GSS í ár hann Jóhann Örn Bjarkason með 74 högg. Jóhann fékk því í hendurnar Gunnabikarinn en það er farandbikar sem fjölskylda Gunna bakara gaf árið 2021. Besta skor kvenna átti Elísabet Böðvarsdóttir en hún fór á 84 höggum. Ungmennabikarinn hreppti Dagur Orri Garðarsson, sonur Garðars og Margrétar Ragga Marteins en hann varð efstur af þeim sex ungmennum sem kepptu á þessu móti í þetta skiptið. 
 
Nefndin þakkar öllum stuðningsaðilum fyrir þeirra frábæru framlög, án þeirra væri mótið ekki haldið. Þátttakendum fyrir frábæran dag og vonandi sjá þau sem flesta aftur að ári í ágúst á 27. Skagfirðingamótinu.  
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir