Sigur í Þorlákshöfn eftir framlengingu
Það má kannski segja að Tindastólsmenn hafi verið komnir með bakið upp að vegg þegar þeir héldu í Þorlákshöfn í gær til að etja kappi við spútniklið Þórsara. Heimamenn voru á hörkusiglingu og höfðu gjörsigrað bæði lið ÍR og KR í leikjunum á undan á meðan Stólarnir hafa hafa verið hálf taktlausir. Það var því heldur betur ljúft að sjá strákana ná sigri eftir framlengdan háspennuleik en lokatölur voru 103-104.
Leikurinn var bráðfjörugur, hraður og sóknarleikurinn í hávegum. Útlitið var ekki sérstakt að loknum fyrsta leikhluta en þá höfðu heimamenn gert 32 stig en Tindastólsmenn 21. Stólarnir komu hins vegar ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn fljótlega í tvö stig, 35-33, og munurinn lengstum þetta 3-5 stig næstu mínútur. Þrír þristar frá Drungilas og Lawson á einni mínútu gáfu heimamönnum 11 stiga forystu en góðar körfur frá Pétri og Axel löguðu stöðuna fyrir Stóla og sex stiga munur í hléi, staðan 57-51.
Larry Thomas jók muninn í tíu stig snemma í síðari hálfleik en þrátt fyrir bullandi sjálfstraust og góðan leik heimamanna létu Tindastólsmenn ekki deigan síga og sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á þriðja leikhluta. Tomsick, sem átti ekki sinn besta leik í gær, minnkaði muninn í 67-64 og skömmu síðar setti Axel þrist og minnkaði muninn á ný í þrjú stig, 72-69. Í næstu sókn jafnaði Viðar metin og Stólarnir sigu fram úr, gerðu í raun þrettán síðustu stig leikhlutans og voru yfir 72-79 þegar fjórði leikhluti hófst.
Heimamenn minnkuðu muninn smám saman en urðu fyrir áfalli þegar rúmar fimm mínútur voru eftir en þá fékk leikstjórnandi þeirra, Larry Thomas, sína fimmtu villu. Það varð ekki til að breyta gangi mála og Tindastólsmönnum gekk illa að gera út um leikinn. Það fór svo að Halldór Garðar jafnaði metin þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks með vítaskoti en klikkaði á síðara skotinu. Staðan 93-93 og bæði lið fengu möguleika til að gera sigurkörfuna. Stólarnir fóru illa að ráði sínu þegar Tomsick ákvað að drippla boltanum í dágóðan tíma og taka svo 3ja stiga skot rétt áður en flautað var af í stað þess að leita að auðveldari körfu. Því var framlengt.
Þórsarar voru fyrri til að skora í framlengingunni og þegar ein og hálf mínúta var eftir náðu þeir fjögurra stiga forskoti, 101-97. Shawn Glover, sem átti ágætan leik, minnkaði muninn í tvö stig af vítalínunni en Lawson svaraði í sömu mynt þegar 40 sekúndur voru eftir og Þórsarar í góðum málum með fjögurra stiga forskot. Tomsick komst að körfu heimamanna og minnkaði muninn í tvö stig þegar 23 sekúndur voru eftir og þegar Halldór Garðar kastaði boltanum inn strax á eftir var Jaka Brodnik vakandi og stal boltanum, kom honum á Tomsick sem fór beint í þrist og sá var aldeils sætur þegar hann klauf loftið og beint í. Tindastólsmenn komnir yfir og 15 sekúndur rúmar eftir af framlengingu. Þórsarar tóku leikhlé en á síðustu sekúndunum náðu þeir tveimur skotum en niður vildi boltinn ekki og Stólarnir náðu því tvö dýrmæt stig.
Sem fyrr fengu Stólarnir mikið af stigum á sig en þó voru mikil batamerki á leik liðsins. Liðið var án Antanas Udras sem er meiddur á hendi og því mæddi meira á Brodnik og hann skilaði 25 stigum, fimm fráköstum og sjö stoðsendingum. Glover var stigahæstur með 28 stig og sjö fráköst. Tomsick gerði vel í lokin en hann átti engu að síður erfitt uppdráttar í gær, með 20 stig reyndar en hitti aðeins úr sex af 25 skotum. Hann kom hins vegar boltanum í körfuna þegar mestu skipti og það var fyrir öllu. Pétur var með 11 stig í leiknum, Axel 8, Viðar 5, Helgi Rafn 4 og Hannes Ingi 3. Í liði heimamanna var Drungilas með 28 stig, 17 fráköst og sjö stoðsendingar, Lawson gerði 24 stig, Larry Thomas 19 og Styrmir Snær 15. Bestu köflunum náðu Stólarnir þegar Helgi Rafn og Viðar voru inn á vellinum.
Næstkomandi fimmtudag mætir Israel Martin í Síkið með sína hafnfirsku gæðinga. Þá er bráðnauðsynlegt að bæta stigum í safnið. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.