Sigur í Sandgerði hjá strákunum og stelpurnar dottnar úr bikarnum

Um síðustu helgi léku báðir m.fl. Tindastóls leiki. Karlalið Tindastóls er komið á fulla ferð í 3. deildinni í knattspyrnu en á laugardaginn léku strákarnir við Reyni Sandgerði í 3. deildinni og sigraði Tindastóll 1-2. Þetta var leikur sem átti að vera heimaleikur Tindastóls en honum var snúið þar sem vallaraðstæður voru ekki þannig að Tindastóll gæti spilað á Króknum. 

Það var Kenneth Hogg sem kom Stólunum yfir eftir um hálftíma leik og voru Tindastólsmenn með forystuna í hálfleik. Á 66. mínútu jafnaði Magnús Magnússon fyrir gestina. Stólarnir lögðu þó ekki árar í bát og 10 mínútum síðar gerði Benjamín Gunnlaugarson sigurmark Tindastóls. Frábær 3 stig í hús hjá strákunum. 

Sigurinn var kærkominn en strákarnir höfðu tapað fyrsta leik sínum í deildinni þegar þeir mættum Vængjum Júpíters á gervigrasinu í Grafarvoginum, 3-1. Óskar Smári Haraldsson kom Stólunum yfir en Vængirnir reyndust sterkari þegar á leið.

Næsti leikur þeirra verður nk. laugardag á Dalvík en þá mæta þeir Dalvík/Reyni og hefst leikurinn kl. 14. 

Tap hjá stelpunum 

Fyrsti leikur kvennaliðs Tindastóls í 1. deild kvenna C fór fram á dögunum á Akureyri en þar töpuðu stelpurnar 2-1. Þær komust yfir með marki Hrafnhildar Björnsdóttur á 67. mínútu en Akureyringar svöruðu fljótt fyrir sig með tveimur mörkum.

Stelpurnar í m.fl. lögðu einnig land undir fót um síðustu helgi og léku við Þrótt í Reykjavík í Bikarkeppninni. Þróttur sigraði í þeim leik 2-0 og komst áfram en Tindastóll er úr leik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir