Sigur Ármanns í Síkinu þrátt fyrir hetjulega baráttu heimastúlkna
Lið Tindastóls og Ármanns mættust í gær í 1. deild kvenna í körfubolta. Lið gestanna hefur verið að gera vel í vetur og var í öðru sæti deildarinnar fyrir leikinn í gær. Þær höfðu yfirhöndina mest allan tímann og í kjölfar þess að Ksenja Hribljan fékk sína aðra tæknivillu og var vísað úr húsi þá reyndist lið Ármanns of sterkt í Síkinu. Þá ekki hvað síst vegna stórleiks Schekinah Sandja Bimpa sem Stólastúlkur náðu aldrei að hemja í leiknum en hún tók 25 fráköst og gerði 49 stig í 64-75 sigri Ármanns.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar og Rebekka Hólm kom liði Tindastóls yfir, 9-6, þegar hún setti niður fyrsta af fjórum þristum sínum í leiknum. Lið Ármanns kláraði fyrsta leikhluta af krafti og breytti þá stöðunni úr 14-14 í 14-21. Eðlilega höfðu gestirnir planað að stöðva Maddie og oft mátti sjá þrjá leikmenn umkringja hana þegar hún fékk boltann inni á teig Ármanns og komst þá hvorki lönd né strönd. Stólastúlkum tókst að jafna leikinn í 23-23 fyrir miðjan annan leikhluta en í hálfleik var staðan 30-36 fyrir lið Ármanns.
Lið Tindastóls er ekki þekkt fyrir að gefast upp og þær voru vel inni í leiknum í síðari hálfleik þó gestirnir héldu forystunni allt til loka. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður var staðan 40-43 en stuttu síðar varð vendipunktur í leiknum þegar Ksenja, leikstjórnandi Stólastúlkna, fékk sína aðra tæknivillu í leiknum og vísað úr húsi. Fyrra tæknvítið fékk hún eftir að hún lét í ljós óánægj þegar henni þótti á sér brotið og seinna tæknivítið fékk hún fyrir að reka upp öskur til að trufla andstæðing í skoti eftir því sem Feykir kemst næst. Dómur sem ekki allir voru sáttir við og sannarlega dýrkeypt fyrir Tindastólsliðið. Þetta er í annað skiptið í vetur sem Ksenja fær tvær tæknivillur í leik.
Leikur Tindastóls riðlaðist nokkuð eftir þetta en gestunum gekk engu að síður brösuglega að hrista heimastúlkur af sér. Í hvert skipti sem lið Tindastóls virtist við það að koma til baka þá mætti Schekinah og ýmist skoraði eða hirti sóknarfrákast en hún tók 16 sóknarfráköst í leiknum! Átta stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, 43-51, og mest náði lið Ármanns 15 stiga forystu, 50-65, um miðjan leikhlutann. Körfur frá Önnu Karen og Evu Rún komu liði Tindastóls í gang á ný og allt virtist mögulegt þegar Rebekka minnkaði muninn í sex stig, 61-67, þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. Ármenningar tóku þá leikhlé og réðu ráðum sínum og skrúfuðu fyrir lekann.
Schekinah frábær í liði Ármanns
Maddie Sutton átti óvenju erfitt uppdráttar í gær en hún skartaði forláta andlitsgrímu eftir að hafa nefbrotnað í leiknum á Ísafirði í umferðinni á undan. Eflaust hefur gríman haft áhrif á leik hennar en hún endaði með 17 stig og 15 fráköst í gær. Rebekka Hólm gerði 12 stig og öll fyrir utan 3ja stiga línuna, Ksenja skilaði ellefu stigum, Anna Karen tíu og Eva Rún átta. Liði Tindastóls gekk illa að sækja inn í teig gestanna en setti niður tíu 3ja stiga skot á meðan lið Ármanns setti aðeins tvö skot niður. Ármann átti 58 skot innan teigs og setti 27 þeirra niður (þar af Schekinah 20) en á meðan setti lið Tindastóls niður átta af 25 skotum innan teigs. Schekinah og Jónína Þórdís voru allt í öllu í sóknarleik Ármanns þó Jónína hafi reyndar aðeins sett eitt af 15 3ja stiga skotum niður.
Jan Bezica, þjálfari Tindastóls, tjáði Feyki að hann teldi Ármannsliðið eitt sterkasta liðið í deildinni. „Ég held að við höfum átt okkar möguleika í dag en við vorum ekki tilbúnir að nýta þá. Mér fannst við standa okkur vel mest allan leikinn,“ sagði Jan en aðspurður um tæknivillurnar á Ksenju sagðist hann auðvitað aldrei vera ánægður sem þjálfari þegar leikmaður þarf að yfirgefa völlinn vegna tveggja slíkra villna. „Ég er stoltur af liðinu mínu, við erum að bæta okkur á hverjum degi og við erum að gera góða hluti.“
Var Schekinah óstöðvandi? „Hún var frábær í dag fyrir Ármann,“ sagði Jan að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.