„Síðustu tíu mínúturnar voru nánast óbærilegar“

Mæðgurnar Guðný Hrund Karlsdóttir og Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir, ásamt fleiri stuðningsmönnum Íslands, á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi. Mynd/úr einkasafni.
Mæðgurnar Guðný Hrund Karlsdóttir og Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir, ásamt fleiri stuðningsmönnum Íslands, á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi. Mynd/úr einkasafni.

Mæðgurnar Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitastjóri í Húnaþingi vestra, og Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir eru staddar á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi. Þær verða á leik Íslands og Englands á Riviera-vellinum í Nice í kvöld og munu hvetja liðið áfram ásamt ríflega 3000 öðrum Íslendingum. Feykir ræddi við Guðnýju sem var á leik Íslands og Austurríkis síðastliðinn miðvikudag.

„Leikurinn var taugatrekkjandi, okkar menn voru svo sem ekki að spila fallegan bolta og voru  frekar lítið með boltann en það er nú það sem gerir fótbolta svona dásamlega íþrótt að það er ekkert mat og enginn á neitt verðskuldað, það eru bara skoruð mörk sem gilda. En síðustu tíu mínúturnar voru nánast óbærilegar,“ sagði hún. Að öðrum ólöstuðum sagði Guðný að Kári Árnason hefði verið besti maður leiksins.   

Mæðgurnar fóru frá París til Nice í gær. Guðný spáir Íslandi sigri í kvöld. „Úrslitin, 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og svo vinnum við  í vítaspyrnukeppni,“ segir hún glöð í bragði.

Áfram Ísland!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir