Sex mörk í sextánda sigurleiknum í röð
Sparkspekingarnir í liði Tindastóls eru ekki af baki dottnir enn þó farið sé að hausta. Í gær héldu drengirnir út í Vestmannaeyjar og léku við botnlið KFS í 3. deildinni á Týsvellinum. Eyjamenn reyndust rausnarlegir gestgjafar og hleyptu sex boltum í mark sitt og þar með ljóst að sextándi sigurleikur Stólanna í röð var gulltryggð staðreynd.
Það var Óskar Smári Haraldsson sem hóf markaveisluna á 32. mínútu og fjórum mínútum gerði Aron Örn Sigurðsson fyrra mark sitt í leiknum og hann bætti við þriðja marki Stólanna í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Staðan 0-3 í hálfleik.
Kenneth Hogg gerði síðan tvö mörk með stuttu millibili; það fyrra á 58. mínútu og það seinna þremur mínútum síðar. Það var síðan Vilhjálmur Kaldal sem kórónaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 80. mínútu. Lokatölur 0-6.
Síðasta umferðin í 3. deildinni fer fram um næstu helgi og mæta Stólarnir þá spræku liði Kára í Akraneshöllinni. Lið Kára, sem hefur átt ágætu gengi að fagna upp á síðkastið (en tapaði þó fyrir Víði í Garðinum í gær), berst við Einherja um þriðja sætið í deildinni. Tindastóll er nú með 48 stig, Víðir 40, Kári 28 og Einherji 26.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.