Sex af Norðurlandi vestra í æfingahópi yngri landsliða KKÍ

KKÍ hefur ráðið þjálfara yngri liða Íslands fyrir komandi verkefni í sumar og munu þau öll taka þátt í verkefnum drengja og stúlkna líkt og síðasta sumar. Þá hefur NM U20 liða verið bætt við í samstarfi Norðurlandanna líkt og hefur verið með U16 og U18 liðin á undanförnum árum. Fimm hafa verið boðuð til æfinga úr röðum Tindastóls og ein frá Kormáki.

Í tilkynningu KKÍ til fjölmiðla kemur fram að verkefni liðanna verða viku keppnisferð til Finnlands hjá U15 liðunum í ágúst, NM í Finnlandi og EM hjá U16 liðunum, NM í Svíþjóð og EM hjá U18 og U20 liðunum en alls eru það átta landslið sem verða í gangi næsta sumar. U20 ára lið drengja leikur í A-deild Evrópukeppninnar næsta sumar en þar leika aðeins 16 bestu þjóðirnar. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland á lið í A-deild í Evrópukeppninni. U16 og U18 drengja og stúlkna og U20 kvenna leika í B-deild þar sem rúmlega 20 lið keppa.

Nú þegar hafa fyrstu hópar verið boðaðir til æfinga í lok desember en þá verður æft ásamt því að mælingar leikmannahópa í samstarfi við HR verða teknar á öllum liðum og þá verða fræðslufyrirlestrar einn daginn að auki fyrir alla hópana. Alls er um að ræða 224 leikmenn frá 26 félögum og þá eru þrír leikmenn í erlendum skólum sem eru boðaðir nú til æfinga.

Hjá Tindastóli hafa fimm verið boðuð á æfingar: Emma Katrín Helgadóttir í U15 stúlkna, Axel Arnarsson U16, Ingigerður Sól Hjartardóttir U18 og bræðurnir Orri Már og Veigar Örn Svavarssynir U18 drengja. 
Frá Kormáki á Hvammstanga var Saga Ísey Þorsteinsdóttir valin í í hóp U15 stúlkna.

Yfirþjálfari yngri liða KKÍ er Finnur Freyr Stefánsson en þjálfarar yngri landsliðana verða:
U20 kvenna · Halldór Karl Þórsson
U20 karla · Baldur Þór Ragnarsson
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
U18 stúlkna · Benedikt Guðmundsson
U18 drengja · Lárus Jónsson
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
U16 stúlkna · Danielle Rodriguez
U16 drengja · Snorri Örn Arnaldsson
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
U15 stúlkna · Andrea Björt Ólafsdóttir
U15 drengja · Emil Barja

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir