„Sennilega mesti hlutfallslegi vöxtur golfklúbbs á Íslandi“
„Þátttaka á nýliðanámskeiði GSS í fyrra sló öll met, en metið var slegið aftur núna,“ segir Kristján Bjarni Halldórsson, formaður Golfklúbbs Skagafjarðar. Kennt er í þremur hollum á mánudögum og fimmtudögum og segir Kristján að yfir 40 nýliðar hafi bæst í hóp golfáhugamanna klúbbsins.
„Gamlir nýliðar fóru á upprifjunarnámskeið, þar voru tvö holl, annars voru alls fimm holl á nýliðanámskeiðum eða í upprifjun í byrjun sumars. Árný Lilja og Atli Freyr sjá um kennsluna með hjálp góðra félaga,“ segir Kristján Bjarni en félagafjöldi GSS er nú um 240 en var 154 fyrir þremur árum. „Þetta er sennilega mesti hlutfallslegi vöxtur golfklúbbs á Íslandi á þessu tímabili. Einnig er líklegt að um met sé að ræða í grósku í íþróttasögu Skagafjarðar.
Það eru þó viss vonbrigði að hlustun á golflagið mitt Skagfirsk sveifla á Spotify hefur ekki aukist í takt við fjölda félagsmanna, jafnvel þótt Geirmundur sé með í textanum," spaugar Kristján léttur í bragði. „Annars fer þetta golfsumar mjög vel af stað í Skagafirði. Fjöldi móta er framundan og hugur í kylfingum og svo er stefnt er á árshátíð um mitt sumar.“
Kristján Bjarni hefur verið öflugur í formannsstólnum undanfarin misseri en í nóvember verður nýr formaður GSS kjörinn. „Það hefur verið skemmtilegt og lærdómsríkt að sinna starfinu og framtíð GSS er björt. Í klúbbnum er fjöldi fólks sem leggur sig fram í sjálfboðavinnu en mörg spennandi verkefni eru framundan í sumar og á komandi árum.“
Hér fyrir neðan má heyra lag Kristjáns Skagfirsk sveifla sem minnst er á hér að ofan og finna má bæði á YouYbe og Spotify.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.