Segir félögin ekki hafa náð saman um rekstrarfyrirkomulag Kormáks/Hvatar
Feykir sagði frá því í gær að meistaraflokkslið Kormáks og Hvatar hafi verið leyst upp en stjórnir félaganna hafa undanfarin tíu ár haldið úti sameiginlegum meistaraflokki. Að sögn Björgvins Brynjólfssonar, fráfarandi formanns meistaraflokksráðs Kormáks/Hvatar, hafði meistaraflokksráði verið gefið umboð til að stjórna því starfi án aðkomu aðalstjórna eða knattspyrnunefnda félaganna.
„Einfaldlega fengið umboð að vori og skilað því að hausti. Þetta hefur gengið vel í tíu ár, það fé sem hefur safnast í sjálfboðastarfi látið duga fyrir rekstrinum og vel það. Góðri afkomu skilað ár hvert. Nú í ár sló við annan tón eftir tímabilið og aðalstjórn Hvatar vildi setja mun ítarlegri reglur um rekstur meistaraflokksins, þar sem meistaraflokksráð Kormáks Hvatar átti að bera allar stærri ákvarðanir undir aðalstjórn Hvatar. Fráfarandi meistaraflokksráð benti á að þetta væri líklega einsdæmi á Íslandi, að þjálfari liðs þyrfti að bera sínar óskir um leikmenn undir tvö ráð og baðst lausnar ef þetta væri framtíðin. Að endingu var það svo að félögin náðu ekki saman um hvernig ætti að reka þetta. Hvöt vildi miðstýringu þar sem ákvarðanaferlið væri þungt, en Kormákur vildi halda sömu uppstillingu og undanfarin ár, þar sem meistaraflokksráð hefði sannað sig sem frambærilegur rekstraraðili meistaraflokksins. Því fór sem fór og sjálfboðastarf fjölmargra einstaklinga síðustu tíu árin farið út um gluggann, þvert á óskir langstærsta hluta leikmanna meistaraflokks, fráfarandi meistaraflokksráðs og fjölmargra áhugamanna um knattspyrnu,“ segir Björgvin.
Auðunn Steinn Sigurðsson, formaður aðalstjórnar Hvatar, sagðist ekkert um málið hafa að segja þegar eftir því var leitað og Magnús Eðvaldsson, sem ásamt öðrum hefur haft umsjón með meistaraflokki Kormáks og stýrði þar með viðræðum við Hvöt, sagði að á þeim bænum væri verið að melta þessa niðurstöðu; „… þannig að ég ætla ekki tjá mig um þetta fyrr en eftir helgi,“ segir hann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.